Karlmaður var á dögunum dæmdur í þrjátíu daga skilorðsbundið fangelsi í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir þjófnað og fíkniefnalagabrot.

Honum er gefið að sök að hafa í júní í fyrra stolið fatnaði úr verslun í Kringlunni fyrir tæpar 230 þúsund krónur, „í félagi við þekktan aðila,“ að því er fram kemur í dómnum.

Á sama tíma er manninum gefið að sök að hafa haft í vörslu sinni 0,66 grömm af maríhúana sem lögreglan fann við öryggisleit í úlpuvasa hans.

Maðurinn játaði skýlaust brot sín og taldist málið sannað með þeirri játningu og öðrum gögnum málsins. Hann hefur ekki gerst sekur um refsiverða háttsemi áður og krafðist verjandi hans því vægustu refsingar sem lög leyfa.

Ásamt skilorðsbundnu fangelsi þarf maðurinn einnig að sæta upptöku á maríhúana efninu auk þess að greiða verjanda sínum 167.400 krónur í þóknun að meðtöldum virðisaukaskatti.