Fjórtán ára drengur var í dag dæmdur sekur af kviðdómi í Bretlandi fyrir að hafa stungið tólf ára stelpu til bana í nóvember í fyrra. Sky news greinir frá þessu.
Stelpan, sem hét Ava White lenti í útistöðum við strákinn og vini hans eftir að þeir tóku hana og vinkonur hennar upp á snjallforritinu Snapchat. Ava bað þá um að eyða myndbandinu og hljóp í átt að þeim þegar einn strákanna stakk hana í hálsinn.
Saksóknari í málinu, Charlotte Newell sagði að viðbrögð stráksins hefðu verið að hlæja og hlaupa í burtu, á meðan lífið fjaraði úr Ava.
Strákurinn var handtekinn stuttu eftir árásina, en hann harðneitaði að hafa stungið Ava. Hann sagði að hann hefði verið að spila tölvuleiki hjá vini sínum, áður en hann reyndi að kenna öðrum strák um árásina.
Að lokum viðurkenndi hann að hafa stungið Ava í sjálfsvörn, en hann var hræddur þegar hún hljóp að þeim og bað þá um að eyða myndbandinu.
Strákurinn mun fá dóm næstu dögum.