Stunguárás átti sér stað í gærkvöldi í fangelsinu á Hólmsheiði þar sem fangi réðst á samfanga sinn og veitti honum áverka með eggvopni. Talið er að aðilarnir tengist tveimur hópum innan undirheima Reykjavíkur sem fjallað hefur verið mikið um síðan árásin á skemmtistaðnum Bankastræti Club átti sér stað.

Fyrst var greint frá málinu á vísir.is en Páll Winkell, fangelsismálastjóri staðfesti árásina í samtali við Fréttablaðið.

„Það átti sér stað líkamsárás fanga gegn samfanga í gærkvöldi í fangelsinu á Hólmsheiði þar sem eggvopni var beitt,“ segir Páll en fórnarlambið hafi þó ekki hlotið alvarlega áverka.

„Afleiðingar urðu bersýnilega ekki miklar en við lítum málið alvarlegum augum og að sjálfsögðu hefur það verið tilkynnt til lögreglu. Hlúð var að sárum viðkomandi í fangelsinu í gær,“ segir Páll en fangelsið muni í framhaldi af þessu fara yfir sína verkferla til þess að tryggja öryggi í fangelsinu sem og öðrum fangelsum.

Páll Winkell, fangelsismálastjóri.
Fréttablaðið/Anton Brink

Tengsl við árásina á Bankastræti Club

Talið er að eggvopnið hafi verið búið til í fangelsinu fremur en smyglað inn í fangelsið

Talið er að þeir sem áttu hlut í árásinni hafi tengst árásinni á skemmtistaðnum Bankastræti Club í nóvember á síðasta ári. Fréttablaðið fjallaði áður um samskipti aðila sem tengjast árásinni en ekki er vitað hvort bein tengsl séu milli samskiptanna og árásarinnar sem átti sér stað í gær.