Karlmaður á fertugsaldri hefur verið ákærður fyrir sérlega hættulega líkamsárás árið 2018, með því að hafa veist að manni með hníf og stungið hann ítrekað í vinstri hlið líkama hans, bæði í upphandlegg og læri með þeim afleiðingum að brotaþoli hlaut þrjú eins sentimetra stungusár.
Samkvæmt ákæru voru mennirnir saman inn í bíl þegar atlagan átti sér stað.
Ákærða er einnig gefið að sök að hafa hótað brotaþola og fjölskyldu hans ofbeldi ef leitað yrði til lögreglu vegna árásarinnar og í ákæru segir að hótunin hafi verið til þess fallin að vekja ótta um líf, heilbrigði og velferð mannsins og fjölskyldu hans.
Héraðssaksóknari fer fram á að maðurinn verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar. Maðurinn er ákærður bæði fyrir hættulega líkamsárás og hótanir en brotin geta varðað allt að sextán ára fangelsi.
Gerð er einkarefsikrafa fyrir hönd brotaþola í ákæru og einnar milljónar krafist í bætur með vöxtum.
Ákæran var gefin út fyrir rúmu ári síðan og verður málið þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur á föstudaginn.