Dagatal SOS barnaþorpa, Öðruvísi jóladagatal, hringir inn jólin sjötta árið í röð. Í stað þess að opna nýjan glugga á hverjum degi og fá súkkulaðimola eða aðrar gjafir að launum þá leynast stutt myndbönd á bak við hvern glugga þar sem þátttakendur fá að kynnast börnum sem búa víðs vegar um heiminn, aðstæðum þeirra og menningu.

Myndböndin hafa fengið þúsundir áhorfa og fylgja nokkrar spurningar sem hvetja þátttakendur til að íhuga efni hvers dags.

Þeir sem vilja geta tekið þátt í stafaþraut dagatalsins en þá svara þeir léttri spurningu og fá 1-2 bókstafi að launum. Stöfunum þarf svo að raða í rétta röð til að finna lausnina.

Samhliða dagatalinu eru SOS barnaþorpin að fara af stað með söfnun sem fer til Malaví og verður notuð til að hjálpa sárafátækum barnafjölskyldum að standa á eigin fótum fyrir tilstuðlan fjölskyldueflingar SOS barnaþorpanna.