Oddur Ævar Gunnarsson
odduraevar@frettabladid.is
Sunnudagur 29. janúar 2023
09.00 GMT

Inga Björk Margrétar Bjarna­dóttir er mörgum kunn en hún hefur undan­farin ár barist ötul­lega fyrir því að réttindi fatlaðs fólks á Ís­landi og annarra í jaðar­hópum séu virt, ýmist á eigin vegum, sem verk­efna­stjóri hjá Þroska­hjálp eða sem vara­þing­maður fyrir Sam­fylkinguna.

Í janúar hóf Inga Björk doktors­nám við Há­skóla Ís­lands í deild menntunar-og marg­breyti­leika við Mennta­vísinda­svið og hyggst rann­saka þar við­fangs­efni sem haft hefur mikil á­hrif á líf ein­stak­linga í jaðar­hópum á Ís­landi; inn­leiðing svo­kallaðra raf­rænna skil­ríkja undan­farin ár en að­gengi ein­stak­linga í jaðar­hópum að þeim er mjög tak­markað.

„Ég ætla að rann­saka staf­ræna fram­þróun hjá ís­lenska ríkinu og sveitar­fé­lögum og skoða á­hrif hennar á jaðar­hópa með á­herslu á fólk með þroska­hömlun, en hefur auð­vitað á­hrif á aðra hópa, svo sem ein­stak­linga sem glíma við heimilis­leysi, flótta­fólk og eldra fólk,“ segir Inga Björk. sem vann mikið í mála­flokknum hjá Þroska­hjálp

„Þar sé ég þessi mál hrannast upp og þá rann mér svo­lítið blóðið til skyldunnar að berjast fyrir þessu og ég hef reynt að vekja at­hygli á þessu og fundað með ótal stofnunum, ein­stak­lingum og fólki í tækni­bransanum,“ segir Inga.

„Á­stæðan fyrir því að fólk með þroska­hömlun sér­stak­lega fær ekki raf­ræn skil­ríki er sú að gerð er krafa um það að þú sért að auð­kenna sjálfan þig. Þú mátt ekki auð­kenna neinn annan en þig, þannig þú ert að segja tölvunni að þú sért þú.“

Það er þannig brot gegn reglu­gerðum um raf­ræn skil­ríki að ein­hver annar auð­kenni ein­stak­linginn. Reglu­gerðirnar eru af al­þjóð­legum upp­runa og gera ekki ráð fyrir því að fólk þurfi að­stoð. „Á sama tíma erum við auð­vitað með samning Sam­einuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks þar sem segir að fatlað fólk eigi rétt á að­stoð og ekki eigi að nota tæknina til að jaðar­setja fólk meira, heldur að nýta hana til að auka sjálf­stæði,“ segir Inga Björk.

Til­gangur raf­rænna skil­ríkja séu að tryggja öryggi þeirra sem þau nota og það takist á við mann­réttinda­vinkilinn. „En það hefur reynst mjög flókið að finna ein­hverja leið sem bæði við­heldur réttindum fólks, að fólk haldi í réttindi sín og tryggir öryggi þess.“

Inga verður sú fyrsta til að rannsaka áhrif stafrænnar þróunar á jaðarhópa hér á landi.
Fréttablaðið/Valli

Inga Björk segir að því meira sem hún kynni sér málið, því fjar­stæðu­kenndari verði þessi veru­leiki. „Því að þróunin heldur á­fram á fullum hraða og við hjá Þroska­hjálp höfum til dæmis verið að eltast við það hvaða opin­beru stofnanir, eins og til dæmis Vega­gerðin og lög­reglan, eða aðrar opin­berar stofnanir, eru að inn­leiða þessa staf­rænu fram­þróun hjá sér.“

Staðan sé sú að engin lög­gjöf sé til um hvernig tryggja megi að­gengi allra. „Þá bara fer fólk í þessa vinnu og maður skilur það auð­vitað að þetta losar í mörgum til­vikum um starfs­menn og það er mjög já­kvætt, en þarfir þessa hóps eru virtar að vettugi og það er alltaf ný og ný þjónusta að loka fólk úti.“

Lagt til að fólk verði svipt sjálf­ræði

Á­huga­vert sé að fylgjast með ís­lenska ríkinu halda á­fram þessari þróun í stað þess að velta því upp hvernig leysa megi þesa flækju. „Og við höfum því miður fengið upp­lýsingar um það að Sýslu­manns­em­bættin hafi lagt það til við að­stand­endur að fólk sé svipt sjálf­ræði, því að­stand­endur eru að lenda í svo miklum vand­ræðum með að sinna dag­legum hlutum eins og banka­málum og heil­brigðis­málum útaf staf­rænni fram­þróun. Þannig lausnin er í raun orðin að svipta fólk réttindum sínum út af því að kerfið bjó til tækni­hindranir.“

Inga segist ekki vita til þess að það hafi verið gert en al­var­legt sé að opin­berir starfs­menn líti á það sem lausn í stað þess að breyta kerfinu.

Stuttu fyrir ára­mót var per­sónu­legum tals­mönnum fatlaðra gert kleyft að skrá sig inn á sínum eigin raf­rænum skil­ríkjum til að komast inn á að­gang fatlaðra skjól­stæðinga sinna.

„Þetta hljómar eins og frá­bær lausn og er það að mörgu leyti, en þetta býr þá til hættu að við tökum sjálf­stæðið af fólki af ó­þörfu. Þannig ein­staklingar sem gætu fylgst með sínum málum og tekið þátt í að stýra sínum per­sónu­legum að­stoðar­mönnum fá ekki lengur tæki­færi til þess eða eru í hættu á því vegna þess að yfir­ráðin eru komin í annarra hendur.“

Þannig séu ein­staklingar með hreyfi­hömlun sem ekki geti stimplað inn kóðann sinn í sömu að­stæðum. „Þeir er í rauninni settir í þá stöðu að þurfa annað hvort að segja ein­hverjum lykil­orðið sitt og láta ein­hvern annan skrá sig inn sem er þá í rauninni samt brot á reglu­gerðinni, af því að það er ein­hver annar að stimpla inn pin-ið sem má ekki vita það, eða þá að fela ein­hverjum öðrum al­gjör yfir­ráð,“ segir Inga Björk.

„Ein­stak­lingurinn er þá með líkam­lega fötlun en getu til þess að gera allt sjálfur og á kannski mikla fjár­muni inni á banka­bók. Þá er hann ekki til­búinn til að láta ein­hvern annan sjá um peninga­málin sín bara út af því að þú þarft að geta stimplað inn kóða með þínum eigin fingrum.“

Inga segir þetta snúast um að halda í sjálf­stæði. „Og auð­vitað er það alltaf kjarninn í mann­réttinda­bar­áttu og samningi Sam­einuðu þjóðanna sem Ís­land er auð­vitað búið að full­gilda og ætlar sér að lög­festa, að leyfa fólki að halda í þetta sjálf­stæði, að vera ekki að taka yfir­ráð af fólki, því auð­vitað býður það líka upp á mis­notkun að fela alla á­byrgðina í hendur ein­hvers annars.“

Inga Björk segir að áhrif tækninnar á mannréttindi munu halda áfram að koma í ljós.
Fréttablaðið/Valli

Fram­tíðar­stef

Á­hrif raf­rænna skil­ríkja á jaðar­hópa hafa aldrei verið rann­sökuð hér á landi fyrr en nú. Inga Björk segir á­hrif tækninnar á jaðar­hópa komin til að vera og birtast á marg­vís­legan hátt.

„Því meira sem ég skoða þetta því meira sé ég að þetta er stef sem við munum sjá sí­fellt meira á næstu árum, ekki bara varðandi fatlað fólk, heldur alla jaðar­hópa,“ segir Inga Björk og nefnir mál­tækni, gervi­greind, heil­brigðis­tækni og líf­tækni í því sam­hengi.

Alls­konar sið­ferðis­spurningar muni vakna með nýrri tækni. „Og það verður hætta á því að þeir sem eru svona meðal­jónin muni græða mjög mikið á þessari inn­leiðingu, sum­sé þeir sem standa vel í sam­fé­laginu, en jaðar­hópar muni sitja eftir og verða fyrir slæmum af­leiðingum.“

Inga Björk nefnir sem dæmi fóstur­skimanir þar sem skimað er eftir því hvort fóstur séu líf­væn­leg eða ekki. „Þar eru fötluð fóstur auð­vitað undir og þetta er þróun sem mun halda á­fram,“ segir hún og nefnir hin­segin genið sem dæmi.

„Ef það finnst ein­hvern tímann, hvaða á­kvarðanir munu for­eldrar taka í löndum þar sem sam­kyn­hneigð er bönnuð að hluta eða öllu leyti? Það er mikil­vægt að við veltum fyrir okkur þróun tækninnar, því við sjáum alveg að stjórn­kerfið heldur ekki í við tækni­þróunina. Okkur hefur ekki tekist að setja reglur eða taka um­ræðuna um sið­ferðis­lega erfið mál um tækni á þeim hraða sem hún þróast.“

Inga nefnir nær­tækara dæmi um ný­legar breytingar á skilum á dósum í Endur­vinnslunni. „Við erum auð­vitað að sjá þessa þróun alls staðar, eins og núna síðast með breytingar á dósa­skilja­gjaldinu, núna þarftu app til þess að fá greiðslu þegar þú ferð með dósir til Endur­vinnslunnar. Maður hugsar strax til þess hóps sem er niðri í bæ um helgar að safna dósum, þetta er oft mjög fá­tækur hópur sem safnar dósum til að eiga í sig og á. Þessir ein­staklingar eiga ekki flottustu snjall­símana eða eiga ekki alltaf tæknina til þess að geta tekið þátt í svona fram­þróun og þarna erum viðað jaðar­setja fólk enn meira.“

Inga segist oft mæta því hugar­fari að þetta sé vanda­mál sem muni á endanum þurrkast út, því næstu kyn­slóðir muni allar kunna á tæknina. „En auð­vitað er það þannig að fólk missir færni vegna aldurs, það lendir í slysum, það veikist og svo er auð­vitað alltaf ein­hver hópur sem vegna fötlunar sinnar eða stöðu að öðru leyti getur ekki til­einkað sér þessa færni,“ segir Inga Björk.

Inga var með pistla á Rás 1 um tækni­mál og á­hrifin á jaðar­hópa ný­verið. Hún segir fjölda eldra fólks hafa haft sam­band í kjöl­farið og sagst tengja við upp­lifun Ingu. „Þó ég hafi auð­vitað mest verið að tala um fatlað fólk í þessu sam­hengi, þá upp­lifði fólk bara að það væri að lokast úti og við erum í rauninni að búa til fyrsta og annars flokks þegna.“

Tæknin teygir sig í allt þessa dagana. Líka í Endurvinnsluna.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Vill nýta eigin for­réttindi

„Ég er í for­réttinda­stöðu og vil nýta þessi tæki­færi sem ég hef fengið,“ segir Inga sem nefnir að hún hafi verið meðal þeirra fyrstu sem fengu NPA þjónustu hér á landi. Not­enda­stýrð per­sónu­leg að­stoð, eða NPA, þýðir að Inga getur búið heima

„Not­enda­stýrð per­sónu­leg að­stoð, eða NPA, þýðir að ég get búið heima hjá mér, stofnað fjöl­skyldu, hef getað sótt mér vinnu, búið er­lendis, tekið sæti á Al­þingi og svo margt fleira því að að­stoðin er á mínum for­sendum en ekki for­sendum kerfisins. Og ég hef ein­hvern veginn nýtt það við að hjálpa öðrum að fá sama frelsi og ég hef fengið.“

Inga greindist tveggja ára gömul með hrörnunar­sjúk­dóminn SMA og hefur notað hjóla­stól frá því hún var barn og heldur sjúk­dómurinn á­fram að hafa á­hrif á líkama Ingu.

„Það er til lyf við honum sem gefið er full­orðnu fólki út um allan heim en á Norður­löndunum og þar með á Ís­landi hefur verið á­kveðið að einungis ein­staklingar undir 18 ára fái lyfið,“ segir Inga en um er að ræða lyfið Spin­raza.

„Og þetta al­gjör­lega brýtur í manni hjartað, vitandi að það er til lyf á Ís­landi sem gefið er á Land­spítalanum, en ég fæ það ekki og þetta varð kannski enn­þá erfiðara eftir að ég eignaðist strákinn minn sem er rúm­lega þriggja ára gamall, að ein­hvern veginn finna að maður er að missa mátt í líkamanum og eitt­hvað sem hefur ekki truflað mig áður en ég finn það núna að það er farið að trufla mig meira og meira að hann er að stækka.

Nú velti ég meira fyrir mér hve lengi ég mun hafa þann kraft sem ég hef núna og hvernig fram­tíðin muni líta út. Hvort ég muni þurfa öndunar­vél í fram­tíðinni, hve­nær það verður, hve­nær ég verði ó­vinnu­fær, hve­nær ég hætti að geta séð fyrir fjöl­skyldunni og þú veist, hvernig verður með að fá að­stoð í fram­tíðinni, þegar ég hætti að geta gert hluti sjálf.“

Athugasemdir