Íslendingar hafa nýtt sér stafræna heilbrigðisþjónustu í auknum mæli á árinu sem er að líða. Innskráðum notendum í Heilsuveru hefur fjölgað um 43 prósent á milli ársins 2019 og 2020.

Heilsuvera var samstarfsverkefni á milli Landlæknisembættisins, Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og upplýsingafyrirtækisins Origo. Markmiðið með vefnum var að koma á gátt þar sem almenningur hefði aðgengi að heilbrigðiskerfinu almennt.

Heilsuvera fór í loftið í október 2014 en notkunin hefur að meðaltali tvöfaldast á hverju ári.

Guðjón Vilhjálmsson forstöðumaður heilbrigðislausna Origo segir í samtali við Fréttablaðið að kór­ónu­veirufar­ald­ur­inn hafi sannað gildi ým­issa tækni­lausna í heil­brigðis­kerf­inu. Hann býst við að aukningin á notkun heilsuveru.is á milli ársins 2019 og 2020 sé líklega um 100 prósent.

Guðjón Vilhjálmsson forstöðumaður heilbrigðislausna Origo.
Fréttablaðið/aðsend

„43 prósent aukningin á við frá janúar 2019 til og með september 2020 þannig við gerum fastlega ráð fyrir því að aukinign sé enn meiri á milli ára. Síðan að Covid-19 skall á hafa um 80 þúsund manns skráð sig inn í hverjum mánuði."

Hann segir að Heilsuvera hafa gjörbreytt því hvernig heilsugæslan veiti þjónustu en þar geta sjúklingar bæði sótt upplýsingar og þjónustu.

Réðust strax í að auka þjónustu

Guðjón segir að strax í upphafi faraldursins hér á landi hafi verið farið í ákveðna hugmyndavinnu, hvernig væri hægt að veita sem mesta þjónustu án þess að fólk þyrfti að mæta á staðinn.

„Það er til dæmis hægt að fá læknisvottorð til vinnuveitanda sent beint inn á Heilsuveru í stað þess að þurfa að sækja það á heilsugæsluna. Einnig er hægt að fylgjast með þeim lyfseðlum sem eru virkir og óvirkir. Læknar geta einnig tekið myndsamtöl við skjólstæðinga sína inn á gáttinni. Það er að vísu ekki hægt að panta það í Heilsuveru en læknirinn getur metið það svo að hann þurfi að sjá sjúkllinginn og þá er hægt að setja það upp."

Hann segir að þetta hafi komið sér mjög vel í byrjun faraldursins, þegar nánast allir heilbrigðisstarfsmenn á Húsavík fóru í sóttkví eftir að ferðamaður lést úr Covid-19.

„Læknar gátu þá alveg skipt yfir í þetta og nýtt sér myndsamtölin inn á Heilsuveru til að sinna sjúklingum," bætir Guðjón við.

Aukið getu heilsugæslunnar

Samskipti milli skjólstæðinga og heilbrigðisstarfsfólks gegnum Heilsuveru hafa næstum þrefaldast síðan 2019 enda margir nýtt sér þann valmöguleika í tímum Covid. Þá hafa samskipti í kringum sýnatökur einnig farið fram á gáttinni en þar getur fólk bæði pantað í sýnatöku og nálgast niðurstöður. Guðjón segir að þetta hafi gjörbreytt sýnatökugetu heilsugæslunnar.

Í byrjun var heilsugæslan á fullu að sinna sýnatökubeiðnum. Áður náðu heilsugæslur að skima í kringum 200-400 einstaklinga á dag en með nýju kerfi í gegnum Heilsuveru getur Heilsugæsla Höfuðborgarsvæðisins skimað um fjögur þúsund einstaklinga á dag. Samt sem áður er starfsemi heilsugæslunnar ekki skert. „Það hefði í rauninni ekki verið hægt að taka svo mörg sýni ef það hefði ekki verið tekið upp sérstakt kerfi eins og við erum með núna," segir Guðjón.

Þróa innviði fyrir bólusetningar

Teymið sem starfar við heilbrigðislausnir hjá Origo er nú að þróa innviði fyrir komandi bólusetningar gegn Covid-19. Fyrsti áfanginn af kerfinu fór í loftið í vikunni en hann gerir heilbrigðisstarfsfólki kleift að skrá forgangshópa.

„Kerfið gerir allt ferlið einfaldara og gagnsærra. Þar verður hægt að kalla fólk inn til bólusetningar, og hægt að fylgjast með hvar fólk er skráð í heilsugæslu til að hægt sé að bóka það á réttan bólusetningarstað."

Í kerfinu verður einnig haldið utan um hvaða bóluefni fólk fær og framleiðslulotur og fleira þannig hægt sé að rekja efnið ef eitthvað kemur upp á. Stefnt er á að kerfið verið tilbúið í lok vikunnar.