Hæstiréttur Bandaríkjanna hefur staðfest tilskipun Donald Trump, Bandaríkjaforseta, þess efnis að transfólki verði meinað að ganga til liðs við Bandaríkjaher en fimm dómarar kusu með henni en fjórir á móti.

Forsetinn tilkynnti tilskipunina á Twitter árið 2017 og verður það því nánar tiltekið stefna Bandaríkjastjórnar að meina „transfólki sem þarf eða hefur undirgengist kynleiðréttingu“ að ganga til liðs við herinn. 

Áður ætlaði Trump sér að meina öllu transfólki að ganga til liðs við herinn en James Mattis, fyrrverandi varnarmálaráðherra, útfærði stefnuna á þann veg að hún gilti einungis um aðila sem kljást við kynáttunarvanda.

Rúmlega 8980 einstaklingar sem eru trans eru nú hermenn fyrir Bandaríkjaher en í minnisblaði sínu um stefnubreytinguna skrifar Mattis að „það sé í eðli herþjónustu að í henni sé fólgin fórn“ og að þeir sem þjóni í hernum „samþykki ákveðnar skorður gegn persónufrelsi sínu.“

Dómarar á neðri dómstigum í bandaríska dómskerfinu höfðu áður komið í veg fyrir að bannið tæki gildi og því hafði Hvíta húsið áfrýjað því til hæstaréttarins, sem nú hefur kveðið upp þann úrskurð að það sé leyfilegt. Stefnan er í andstöðu við stefnu Barack Obama, forvera Trump, en undir hans stjórn var öllu transfólki leyft að þjóna í Bandaríkjaher.