Áfrýjunarnefnd neytendamála hefur staðfest ákvörðun Neytendastofu um að íslensk lög eigi við um smálán eCommerce 2020 sem rak vörumerkin Smálán, Kredia og fleiri hér á landi. Í fyrra breytti eCommerce 2020 lánafyrirkomulagi sínu að kröfu Almennrar innheimtu og hóf að veita lán með íslensku hámarki, sem er nú 36 prósent vextir. Áður var árleg hlutfallstala kostnaðar allt að 13 þúsund prósent.

Fyrirtækið var skráð í Danmörku en lánar aðeins Íslendingum og var álitamál hvort íslensk eða dönsk lög ættu við um samningana.

Líkt og Fréttablaðið greindi frá nýverið tilkynnti danska fjármálaeftirlitið starfsemi þess til lögreglu fyrir meint brot á lögum um peningaþvætti. Var starfsemin í kjölfarið færð til Íslands.

Brynhildur Pétursdóttir, framkvæmdastjóri Neytendasamtakanna, segir niðurstöðuna ekki koma á óvart. „Um er að ræða lán sem voru veitt á Íslandi og í íslenskum krónum. eCommerce 2020 og innheimtuaðili þeirra hér á landi hljóta að endurgreiða viðskiptavinum sínum ofgreidda vexti,“ segir Brynhildur.

„eCommerce 2020 er hætt smálánastarfsemi, blessunarlega, en það er dönskum yfirvöldum að þakka sem hafa kært fyrirtækið fyrir brot á lögum um peningaþvott.“