Halldór Einarsson, jafnan kenndur við Henson, segir sín verstu mistök í lífinu hafa verið þau að hafa sært fórnarlömb Róberts Downey, þá Róberts Árna Hreiðarssonar, með því að skrifa upp á að hann ætti að hljóta uppreist æru. Það skammist hann sín fyrir.

„Ég gerði athugasemd við texta bréfsins en skrifaði síðan upp á plaggið, illu heilli. Hefði ég lesið dóminn eða yfir höfuð vitað eitthvað um þetta ömurlega mál, hefði samviska mín alls ekki boðið mér að tengjast því með neinum hætti,“ segir Halldór í viðtali í helgarblaði Fréttablaðsins, en á morgun kemur út bókin Stöngin út, ævisaga Halldórs, sem skrifuð er af Magnúsi Guðmundssyni blaðamanni.

Halldór segist í samtali við Fréttablaðið hafa haft samband við Berg Ingólfsson, föður einna stúlknanna sem Róbert braut á, eftir að málið rataði í fréttirnar.

„Ég gerði þessi miklu mistök og þar við situr að ég ber einn ábyrgð á mínum gjörðum. Í viðleitni minni til að bæta fyrir það sem ég hef gert, setti ég mig í samband við Berg Þór Ingólfsson, föður einna stúlkunnar og þann mann sem fór fyrir þeim sem mest og best börðust gegn því óréttlæti sem kynferðisglæpir eru,“ segir Halldór.

„Í framhaldi af því hitti ég Berg og stúlkurnar sem í hlut áttu og við ræddum þetta mál. Á þeim fundi báðu stúlkurnar mig um að draga undirskrift mína til baka. Ég fór við fyrsta tækifæri niður í dómsmálaráðuneyti og ræddi þar við lögfræðing sem sagði mér að engu væri hægt að breyta og þar við sat. Vonandi munum við sem samfélag einbeita okkur í framtíðinni að því að styðja þolendur með ráðum og dáð. Mitt klúður stendur og ég biðst afsökunar á því.“

Á morgun kemur út bókin Stöngin út, ævisaga Halldórs Einarssonar. Sögu hans skrifar Magnús Guðmundsson blaðamaður. Halldór og Magnús eru í viðtali í helgarblaði Fréttablaðsins og ræða þar um lífshlaupið og gengi Halldórs í viðskiptum sem hefur verið sveiflukennt.