Stærðarinnar jarð­skjálfti fannst víða á landinu klukkan 13:43 í dag. Fyrstu tölur sem borist hafa um stærð skjálftans eru 5,7 á Richter og telur Páll Einars­son, jarð­eðlis­fræðingur, þá tölu vel geta staðist en hann fann vel fyrir skjálftanum sjálfur.

Það geti þó vel verið að það breytist eitt­hvað þegar fleiri mælingar koma inn. „Þegar þetta er orðið svona stórt þá eru betri og á­reiðan­legri mælingar í út­löndum en 5,7 er á­gætis bráða­brigðar­tala," segir Páll.

Mælarnir hér á landi eru oft mettaðir og sýna ekki alveg rétta mynd. Það geti því verið betra að hinkra að­eins við og sjá hvaða mælingar berast að utan.

Fannstu þennan?

Skjálftinn stóð yfir í nokkurn tíma og hafa þó nokkrir eftir­skjálftar mælst í kjöl­farið, sá stærsti af stærðinni 3,0. „Fannstu þennan?“ spyr Páll þegar einn eftir­skjálfti reið yfir. Hann segir að vel megi búast við hundruðum eftir­skjálfta eftir svo miklar jarð­hræringar. „Við látum okkur ekkert bregða við það.“

Skjálftinn varð sex kíló­metra vestan við Kleifar­vatn og fannst á Akur­eyri, Reykja­nes­skaga, Ísa­firði og Hellu. „Það hefur ekki orðið svona stór skjálfti á Reykja­nes­skaga síðan árið 1968.

Skjálftinn tengist virkni á fleka­skilunum en mikil ó­kyrrð hefur verið á Reykja­nes­skaga megnið af árinu. „Þetta er beint fram­hald af því.“

Eldgos ekki líklegt

Einnig hefur mælst mikil kviku­söfnun á tveimur stöðum það sem af er ári, við Þor­björn, norðan við Grinda­vík, og við Krýsu­vík. Páll segir þó ekkert benda til þess að eld­gos sé í vændum.

„Þetta er ekki dæmi­gerð byrjun á eld­gosi. Fleka­skil geta vel hreyfst án þess.“