Kólumbíski herinn handtók í gær eiturlyfjabaróninn Dairo Antonio Úsuga, öðru nafni Otoniel, eftir viðureign í frumskógarfylgsni hans í norðvesturhluta landsins. Forseti Kólumbíu, Iván Duque, var sigurreifur þegar hann tilkynnti handtöku glæpaforingjans í myndbandsávarpi og sagði hana stærsta sigur í baráttunni gegn fíkniefnahringjum síðan Pablo Escobar var ráðinn af dögum á tíunda áratugnum.

Otoniel var eftirlýstasti fíkiefnasali Kólumbíu og leiðtogi stærstu glæpasamtaka landsins. Flóagengisins svokallaða (sp. Clan del Golfo). Ríkisstjórn Kólumbíu hafði boðið fundarverðlaun upp á 800.000 dollara fyrir upplýsingar um dvalarstað hans en Bandaríkjastjórn hafði sett fimm milljónir dollara til höfuðs honum. Otoniel hefur verið borinn þungum sökum, meðal annars um að hafa staðið fyrir stórtæku kókaínsmygli til Bandaríkjanna. Að því er fram kemur í umfjöllun Reuters hefur hann einnig verið sakaður um barnaþrælkun og kynferðisbrot gegn börnum.

Rassían gegn Otoniel gekk undir nafninu Ósírísaraðgerðin og var samstarfsverkefni milli kólumbíska hersins og lögreglunnar. Fimm hundruð hermenn og 22 þyrlur tóku þátt í aðgerðinni, sem fór fram í héraðinu Antioquia nálægt landamærunum við Panama. Einn lögreglumaður lést við handtökuna.

Sergio Guzmán, framkvæmdastjóri samtakanna Colombia Risk Analysis, taldi fljótfært að lýsa yfir endalokum Flóagengisins með handtöku Úsuga. „Þetta er stórmál því hann er stærsti eiturlyfjakóngur Kóilumbíu,“ sagði hann við Reuters, „en einhver mun koma í stað Otoniels.“