Íbúar á Neskaupstað berjast nú fyrir því að staða matvöruverslunar verði bætt í bæjarfélaginu.

Sérstakur hópur stendur nú að baki undirskriftasöfnun um úrbætur matvöruverslunar og stendur söfnunin til 17. júlí næstkomandi. Austurfrétt fjallar um málið.

Undirskriftasöfnuninni var hrundið af stað vegna óánægju íbúa í Neskaupstað með vöruúrval og verðlag í Kjörbúðinni, sem er eina matvöruverslun staðarins.

Íbúar telja að Samkaup, sem á Kjörbúðina, hafi ekki staðið við gefin fyrirheit um úrbætur þegar verslun fyrirtækisins var síðast breytt.

Ábyrgðarmaður undirskriftasöfnunarinnar segir að Samkaup hafi lofað að lækka vöruverð þegar versluninni var breytt í Kjörbúð.

Lítið úrval og hátt verð

Samkvæmt nýjustu verðkönnun ASÍ hefur vöruverð hækkað mest í Kjörbúðarverslunum á liðnu ári.

Þá segja íbúar Neskaupstað úrvalið vera afar slappt. Mikið er af sælgæti í Kjörbúðinni en oft vanti vörur sem mikil eftirspurn er eftir.

Í áskoruninni kemur einnig fram að húsnæði verslunarinnar sé of lítið og það eigi sinn þátt í lélegu úrvali og aðstöðu þar.

Hópurinn leggur ríka áherslu á að óánægjan beinist ekki gegn starfsfólki Kjörbúðarinnar á staðnum.

460 manns höfðu skrifað undir áskorunina fyrir 1. júlí en hópurinn sem stendur fyrir henni freistar þess að fjölga undirskriftum.

Þau segja að nú sé komið að íbúum á Neskaupstað að segja sína skoðun og berjast fyrir umbótum:

„Það þýðir ekkert að sitja heima og væla, maður verður að gera eitthvað. Okkar stærsti draumur er að fá Nettó-búð."