Eigendur Vegan búðarinnar í Faxafeni, hafa sótt um leyfi til að breyta innra skipulagi í versluninni til byggingarfulltrúa. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem þau sækja um breytingu en búðinni hefur vaxið fiskur um hrygg síðan hún opnaði. Beiðninni var reyndar frestað og vísað til athugasemda.

„Við erum að framleiða sósur, salöt og samlokur og ýmislegt fleira undir merkjum Jömm í Hafnarfirði en við erum að flytja þá framleiðslu í Faxafen,“ segir Magnús Reyr Agnarsson einn af eigendum búðarinnar. Áður en Vegan búðin opnaði var Bónusverslun þar til húsa og fá kælarnir sem áður kældu grænmeti og mjólkurvörur fyrir matvörurisann nú nýtt hlutverk fyrir framleiðslu og pökkun.

Úrvalið af vegan réttum í búðum og á veitingahúsum hefur fjölgað mikið að undanförnu en Magnús og eiginkona hans Sæunn Ingibjörg Marinósdóttir byrjuðu sem heildsala forðum daga áður en þau slógu í gegn með vörumerkinu sínu Jömm. „Það var ekki mikið úrval þegar við byrjuðum árið 2015. Núna fáum við beiðnir í hverri viku frá framleiðendum erlendis um að selja vörurnar sínar. Það er mikil framþróun í vegan matvælum í heiminum. Gamlir framleiðendur eru að breyta rótgrónum uppskriftum og taka út aukaefni til að vegan væða. Úrvalið í dag er allt annað en það var.“

Fyrir utan að vera í framkvæmdum í búðinni eru þau Sæunn og Magnús að mála og gera fínt heima hjá sér. Sæunn var einmitt með málarapensilinn á lofti heima hjá þeim þegar viðtalið fór fram. „Það eru alltaf til verkefni,“ segir hann og hlær. „Við byrjuðum með verslunina í litlum hluta gamla Bónus. Við vorum með heildsölulager þar líka en svo er búðin búin að éta á lagerinn því við erum alltaf að fá fleiri og fleiri vörur. Búðin er því orðin stærsti hlutinn af húsnæðinu.“

Enda er það orðið svo að ekki aðeins þeir sem aðhyllast vegan koma í búðina heldur einnig þeir sem vilja ekki glúten, sykur eða annað í sinn mat, eða eru hreinlega bara forvitnir um hrein matvæli.

„Það sem við höldum eftir okkar heimsóknir víða um heim er að Vegan búðin í Faxafeni sé ein stærsta vegan búð í heimi bæði í fermetrum talið og fjölda vörunúmera. Í Los Angeles og Berlín eru stórar búðir en þær ná okkur ekki í fermetrum talið. Þær 100 prósent vegan búðir sem við höfum skoðað ná okkur ekki í fermetrum,“ segir Magnús.

Aðspurður hvernig hann sjái framtíðina hjá sér og Vegan búðinni segir hann ekki spurning að fleiri og fleiri muni koma inn á þennan markað. „Framtíðin er vegan því plánetan þolir þetta ekki,“ segir Magnús.