Ársfjórðungsskýrsla Meta, móðurfyrirtækis Facebook sem kom út á miðvikudaginn leiddi í ljós óvænta staðreynd: Í fyrsta skipti er vöxtur fyrirtækisins staðnaður um allan heim.

Tala daglegra notenda Facebook hefur þar af leiðandi lækkað, og er þetta í fyrsta skipti í 18 ára sögu fyrirtækisins sem það gerist. Notendum hefur fækkað um hálfa milljón notenda á síðustu þremur mánuðum ársins 2021, niður í 1,93 milljarða innskráninga á dag.

Tapið var mest í Afríku, Rómönsku Ameríku og á Indlandi, sem sérfræðingar telja benda til þess að einskonar mettun hafi verið náð á heimsvísu. The Washington Post birtir ítarlega umfjöllun um málið.

Hlutabréfaverð Meta hafði hríðfallið um meira en 26 prósent síðdegis á fimmtudag, og þar með gleypt 220 milljarða dala af markaðsvirði fyrirtækisins. Niðurstaðan var stærsta tap í 18 ára sögu fyrirtækisins.

Facebook stendur frammi fyrir áskorunum á mörgum vígstöðvum. Keppinautar á borð við TikTok blómstra sem aldrei fyrr og alþjóðlegar eftirlitsstofnanir hafa ítrekað gert athugasemdir við viðskiptahætti fyrirtækisins.

Samkvæmt greiningu The Washington Post, er þetta gríðarlega hátt fall fyrir fyrirtæki sem alla tíð hefur einkennst af stanslausri vaxtarþráhyggju.