Stærsta skemmtiferðaskip sögunnar mun brátt fara í sína fyrstu siglingu og verður stefnan sett á brotajárnshaugana.

Þetta kemur fram á vef Guardian en Global Dream II átti að verða stærsta skip sinnar tegundar með pláss fyrir meira en 9000 farþega.

Ástæða þess að skipinu verður fargað er að enginn kaupandi hefur fundist fyrir skipið sem enn er ekki fullklárað, en fyrirtækið sem annaðist byggingu þess er gjaldþrota.

Þrotabú fyrirtækisins hefur leitað kaupanda svo unnt væri að koma skipinu í not en algjört fall varð í eftirspurn á skemmtiferðaskipum á tímum Covid.

Skipið sem átti að innihalda 2500 káetur, 19 þilför, innbyggðan rennibrautagarð og kvikmyndahús með 8 skjáum var stærsta verkefni skipaframleiðandans MV Werften.

Til stóð að byggja tvö skip af sömu tegund og eru enn áform um að systurskipið Global Dream I verði klárað af öðrum verktaka.

Núverandi eigandi skipahafnarinnar, sem óselda skipið liggur í, vill þó nýta hana til bygginga á kafbátum og er því eitt og hálft ár til stefnu áður en systurskipinu verður einnig siglt á brotahaugana finnist ekki kaupandi fyrir það.

Hægt er að sjá áætlaða innviði skipsins í kynningarmyndbandi hér fyrir neðan