Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, sagði mikilvægt að muna að COVID-19 faraldrinum verður ekki lokið hér á landi fyrr en honum lýkur um allan heim.
„COVID er hvergi lokið og COVID fárinu lýkur ekki fyrr en því lýkur í heiminum öllum,“ sagði Þórólfur sem minnti á að það myndu komu upp ný afbrigði sem þyrfti að takast á við og áskoranir eftir bólusetningu og sagði það ákvörðun stjórnvalda að ákveða hvaða aðgerðir ætti að grípa til.
Þórólfur fór yfir stöðu mála ásamt Víði Reynissyni á upplýsingafundi almannavarna. Hann sagði það ljóst að útbreiðsla smita hafi aukist síðustu tvær til þrjár vikurnar og sagði það hafa gerst í kjölfarið á tilslökunum í byrjun júlí þegar innanlandssmit voru í lágmarki og stór hluti landsmanna var orðinn bólusettur.
Hann sagði að Delta afbrigðið hafi algerlega tekið yfir og að það væri ljóst að fullbólusettir geti smitast auðveldlega og smitað aðra.
„Bólusetning er ekki að skapa það hjarðónæmi sem vonast var til,“ sagði Þórólfur á fundinum.
Hópsmit rakin til skemmtistaðar og hópferða
Hann sagði að raðgreining sýndi að uppruna má rekja til hópferða til London og Krítar og til skemmtistaðar í miðbæ Reykjavíkur.
Þórólfur sagði að nú værum við að upplifa stærstu bylgju COVID-19 faraldursins hér á landi og að það eigi eftir að koma í ljós hvort að takmarkanirnar sem tóku gildi í síðustu viku séu nóg til að hamla honum.
Hann fór yfir fjölda þeirra sem hafa þurft að leggjast inn en í bylgjunni hafa um 24 lagst inn sem er um 1,6 prósent þeirra sem hafa veikst. Í fyrri bylgjum var það hlutfall um fjögur til fimm prósent. 70 prósent af þeim sem að hafa greinst frá 1. júlí hafa verið fullbólusett og hlutfall þeirra sem eru bólusett sem hafa þurft að leggjast inn er eitt prósent. Hlutfall þeirra sem eru smituð og eru óbólusett og hafa þurft að leggjast inn eru 2,4 prósent.
„Við erum að sjá vörn af bólusetningunni af alvarlegum veikindum,“ sagði Þórólfur en að enn væri lítið vitað um áhrifin meðal eldra fólks og viðkvæmra hópa.
Þá fór Þórólfur yfir bólusetningar þeirra sem fengu Janssen en þeim verður boðin auka sprauta af Pfizer eða Moderna og svo kemur í ljós á næstu vikum hvort að börnum á aldrinum 12 til 15 ára verður boðin bólusetning.