Ný Kona er stærri en áður og hönnuðir Hyundai hlustuðu greinilega á eigendur fyrri kynslóðar og bættu við afturendann. Meira fótarými verður í nýja bílnum ásamt meira plássi fyrir farangur, en farangursrýmið fer úr 332 lítrum í 466 lítra. Bíllinn er líka lengri á alla kanta en hann hefur lengst um 175 mm og hjólhafið um 60 mm sem er nú 2.660 mm. Óhætt er að segja að útlitið er mun kraftalegra og ljósahönnunin er framúrstefnuleg.

Innandyra er breytingin sú að komnir eru tveir 12,3 tommu upplýsingaskjáir eins og í Ioniq 5. Bíllinn kemur á sama undirvagni og ný Kia Niro en það þýðir að rafhlaðan er 65,4 kWst og 215 hestafla rafmótor fyrir framhjólin. Drægið verður allt að 490 kílómetrar en þar sem rafkerfið er 400 volt er það hægvirkara í hleðslu en 800 volta rafkerfi Ioniq.