Kópavogsbær hefur hafið skoðun á öllum stærri leiktækjum þar sem er umtalsverð fallhæð í kjölfar þess að sex ára drengur féll úr leiktæki á skólalóð við Snælandsskóla og hryggbrotnaði fyrir rúmum tíu vikum.

Í svari garðyrkjustjóra við fyrirspurn Sigurbjargar Erlu Egilsdóttur, bæjarfulltrúa Pírata, kemur fram að verið sé að fara yfir hvort kastalinn, eða hluti hans, verði fjarlægður.

Unnið er að því að skoða alls 104 leiktæki sem sett hafa verið upp á grunn- og leikskólalóðum ásamt opnum leiksvæðum á árunum 2016-2020 en árið 2016 hófst ákveðið endurnýjunarskeið lóða sem stendur enn yfir. Þá er tilbúin áætlun um falldempunarmælingar sem hefst um næstu mánaðamót.

Úrbóta greinilega þörf

„Ég er ánægð með þessi viðbrögð. Það varð strax ljóst eftir slysið í haust að þó svo að öryggisstaðlar hafi verið uppfylltir var úrbóta greinilega þörf enda er þegar hafin vinna við að fá umræddum staðli breytt,“ segir Sigurbjörg. „Það var mildi að ekki fór verr og það mikilvægasta er að við lærum af þessu og gerum betur í framhaldinu.“