Veðurstofa Íslands hefur gefið út nýja veðurspá og svæði þar sem gul viðvörun hefur verið sett á hefur verið stækkað.

Spáð er allhvössum vindi á hálendinu í kvöld og á norðvestanverðu landinu á morgun.

Viðvörun fyrir miðhálendið tekur gildi klukkan 19:00 í kvöld. Spáð er suðaustan 13-18 metrum á sekúndu á sunnan- og vestanverðu hálendinu. Vindstyrkur getur náð allt að 25 metrum á sekúndum í hviðum, en slíkt er varasamt fyrir göngufólk og þá sem hafast við í tjöldum.

Viðvörun fyrir Vestfirði og norðvesturland tekur gildi klukkan 13:00 á morgun. Veðurstofan gerir ráð fyrir hvössum vindi, talsverðri eða mikilli rigningu og búast má við auknu afrennsli og vatnavöxtum í ám og lækjum sem eykur hættu á flóðum og skriðuföllum.

Þá verður varasamt fyrir ökutæki sem taka á sig mikinn vind. Gangi spár eftir er varasamt fyrir göngufólk að vera á ferli og þá sem hafast við í tjöldum.