Viðbygging Borgarbókasafnsins í Grófinni í Reykjavík, sem staðið hefur auð í hálfan áratug, fær nú bráðum glæsilegt hlutverk, en fimm teymi arkitekta skila tillögum um upplifunartorg í húsinu í dag og verður sú besta valin 22. júní.

Pálína Magnúsdóttir borgarbókavörður segir margar ástæður vera fyrir því að ekki var ráðist í lokafrágang viðbyggingarinnar fyrr en nú, en nýja rýmið er alls 1.200 fermetrar, áfast vesturgafli Grófarhússins, á sex hæðum.

Meginástæðan hafi verið niðurskurðarkrafa í rekstri bókasafnsins á sínum tíma, en um líkt leyti hafi verið ljóst að nýting bókasafnsins á húsakostinum í Grófarhúsinu myndi breytast, skjalasafnið á þriðju hæð hússins og hluta þeirrar fjórðu yrði flutt í annað húsnæði og ljósmyndasafnið á þeirri sjöttu færi í Hafnarhúsið.

„Því var augljóst að gera þyrfti allsherjar endurskipulag á þessum samtals 7.000 fermetrum sem Borgarbókasafnið hefur nú til umráða eftir að viðbyggingin kom til sögunnar og tilflutningar á annarri starfsemi eru að baki,“ segir Pálína.

Og ber nú nýrra við, því bókasafnið mun taka stórtækum breytingum hvað þjónustu og upplifun varðar. „Nýja Borgarbókasafnið verður viti við höfnina,“ útskýrir Pálína og segir hollenska arkitektinn Aat Vos hafa verið húsráðendum til ráðgjafar um notkunarmöguleika alls hússins.

„Hann er heimskunnur sérfræðingur í gerð svokallaðra samfélagshúsa, á þriðja staðnum, sem svo heitir og kemur á eftir heimili og vinnustað,“ segir Pálína og kveðst afar spennt að sjá útfærslurnar sem munu meðal annars státa af miklu stærri barnadeild en nú er til staðar í húsinu, alls konar viðburðum og ævintýrum fyrir fjölskyldur og einstaklinga.

„Við verðum staður til að vera á,“ segir Pálína Magnúsdóttir.