Stór sprenging varð nærri höfninni í höfuð­stað Líbanon síð­degis í dag og eru upp­tök sprengingarinnar enn ó­ljós. Mynd­band af sprengingunni sýndu gríðar­lega eyði­leggingu á svæðinu sem hún sprakk og sást reykjar­mökkur um alla borgina.

Ekki er vitað hversu margir slösuðust í sprengingunni en sam­kvæmt frétta­stofu AFP skipta slasaðir tugum.

Vitni segja aðra sprengju hafa sprungið skömmu eftir þá fyrri og hafa borist heimildir um elds­voða á svæðinu.

Hryðjuverkasamtök liggja undir grun

Breska ríkis­út­varpið telur að sprengingin gæti tengst yfir­vofandi úr­skurði dóm­stóla Sam­einuðu þjóðanna yfir sak­borningum sem grunaðir eru um morðið á fyrrum for­sætis­ráð­herra landsins, Rafik Hariri.

Fjórir menn eru grunaðir um aðild að morðinu og eru þeir allir með­limir í sam­tökum Hez­bollah, sem njóta stuðnings bæði sýr­lenskra og íranskra stjórn­valda. Sam­tökin hafa alla tíð neitað að hafa átt þátt í morðinu.

Heimildir BBC herma að seinni sprengingin hafi átt sér stað á heimili Saad Hariri, nú­verandi for­sætis­ráð­herra og syni Rafik Hariri.