Einar Guðbjartsson, annar eigandi fjórhjólaleigunnar Black Beach Tours, gekk á stærðarinnar hvalreka í fjörunni á Þorlákshöfn fyrr í dag.

Einar var ekki viss hvort um væri að ræða búrhval eða mögulega steypireið en taldi víst að hann væri í það minnsta 30 tonn. Hvalurinn var margir metra að lengd en búrhvalir verða allt að 12 metrar á lengd.

„Þetta er risa stórt,“ segir Einar í samtali við Fréttablaðið í dag.

Einar segir í samtali við Fréttablaðið að ferðamönnunum sem hann var með í ferð í morgun hafi verið mjög brugðið.

„Sum þeirra gátu varla náð andanum þau voru svo hissa. En ég held heldur aldrei séð svona stóran hval á landi. Ég veit ekki hvað hefur gerst, það var eitthvað blóð á honum, en ég veit ekki hvernig hann hefur drepist,“ segir Einar.

Hann segir að hann hafi nærri daglega verið í fjörunni síðustu tvö árin og hann hafi aldrei séð slíkt áður.

„Það eru stundum selur, en ekkert í líkingu við þetta,“ segir Einar.

Einar sá ekki á hvalnum hvernig hann drapst.
Mynd/Einar Guðbjartsson