Árni Guð­munds­son, veiði­maður, var þátt­takandi í ár­legri hreinsun Elliða­ánna í júní þegar hann fann stærðarinnar ál dauðann í ánni. Hann stóðst ekki mátið að smella mynd af flykkinu enda ekki oft sem menn ramba á svo stóran ál. „Til saman­burðar er ruslatínan, sem er 90 sentí­metra löng,“ segir Árni í sam­tali við Frétta­blaðið.

Þetta er þó ekki í fyrsta skipti sem Árni rekst á annan eins ál. „Árið 2018 fann einn af svipaðri stærð fyrir ofan Ár­bæjar­stífluna í ár­legri hreinsun ánna.“

Állinn er örlítið stærri en ruslatínan sem er 90 sentímetra löng.
Mynd/Árni Guðmundsson

Frá sjó að stíflu

Það er mögu­lega ekki öllum kunnugt að fleiri tegundir en fiska en lax, urriða og sjó­birting sé að finna í ánum en Árni bendir á að það finnist áll í ánum alveg frá sjó upp að Elliða­stíflu.

„Maður sér hann stundum þegar áin er lygn og fyrir kemur að hann tekur agn veiði­manna hvort sem það er fluga eða maðkur,“ bætir Árni við. „Stang­veiði­menn eru ekki hrifnir af því þegar állinn tekur hjá þeim og þykir hann hinn mesti ó­dráttur, enda er erfitt að eiga við hann.“ ´

40 ára gamall háll áll

Á­stæða þess er hve sleipur hann er og segir Árni hug­takið „háll sem áll“ vera hverju orði sannara. Þrátt fyrir að vilja ekki fá álinn á agnið segir veiði­maðurinn álinn vera á­huga­verða skepnu. „Hann býr yfir þeim hæfi­leika að geta ferðast á milli staða með því að skríða eða hlykkjast á­fram í blautu grasi.“ Þannig geti hann skriðið upp raka kletta eða gras fram hjá fossum.

Bjartálar í Elliða­ánum geta orðið allt að fjöru­tíu ára gamlir sam­kvæmt rann­sóknum sem starfs­menn Veiði­mála­stofnunar gerðu á árunum 1999-2005. Einnig eru þeir veru­lega lang­lífir og verða allt að fjöru­tíu ára gamlir.