Árni Guðmundsson, veiðimaður, var þátttakandi í árlegri hreinsun Elliðaánna í júní þegar hann fann stærðarinnar ál dauðann í ánni. Hann stóðst ekki mátið að smella mynd af flykkinu enda ekki oft sem menn ramba á svo stóran ál. „Til samanburðar er ruslatínan, sem er 90 sentímetra löng,“ segir Árni í samtali við Fréttablaðið.
Þetta er þó ekki í fyrsta skipti sem Árni rekst á annan eins ál. „Árið 2018 fann einn af svipaðri stærð fyrir ofan Árbæjarstífluna í árlegri hreinsun ánna.“

Frá sjó að stíflu
Það er mögulega ekki öllum kunnugt að fleiri tegundir en fiska en lax, urriða og sjóbirting sé að finna í ánum en Árni bendir á að það finnist áll í ánum alveg frá sjó upp að Elliðastíflu.
„Maður sér hann stundum þegar áin er lygn og fyrir kemur að hann tekur agn veiðimanna hvort sem það er fluga eða maðkur,“ bætir Árni við. „Stangveiðimenn eru ekki hrifnir af því þegar állinn tekur hjá þeim og þykir hann hinn mesti ódráttur, enda er erfitt að eiga við hann.“ ´
40 ára gamall háll áll
Ástæða þess er hve sleipur hann er og segir Árni hugtakið „háll sem áll“ vera hverju orði sannara. Þrátt fyrir að vilja ekki fá álinn á agnið segir veiðimaðurinn álinn vera áhugaverða skepnu. „Hann býr yfir þeim hæfileika að geta ferðast á milli staða með því að skríða eða hlykkjast áfram í blautu grasi.“ Þannig geti hann skriðið upp raka kletta eða gras fram hjá fossum.
Bjartálar í Elliðaánum geta orðið allt að fjörutíu ára gamlir samkvæmt rannsóknum sem starfsmenn Veiðimálastofnunar gerðu á árunum 1999-2005. Einnig eru þeir verulega langlífir og verða allt að fjörutíu ára gamlir.