Jón Örvar Bjarna­son, sér­fræðingur í tjóna- og á­hættu­mati hjá Náttúru­ham­fara­tryggingu Ís­lands, segir að í­búar í Grinda­vík og annars staðar á Suður­nesjum og jafn­vel höfuð­borgar­svæðinu, þurfi ekki að hafa á­hyggjur af því að húsin þeirra þoli ekki álag vegna sí­felldra jarð­skjálfta sem orðið hafa, en undan­farnar þrjár vikur hafa mælst yfir 34 þúsund jarð­skjálftar á Reykja­nes­skaga.

„Þetta snýst um burðar­þol hússins og það er burðar­virkið sem þarf að glíma við kraftana sem jarð­skjálftarnir valda. Á meðan skjálftarnir valda ekki tjóni á burðar­virkinu þá þola húsin í raun sí­endur­tekna skjálfta,“ segir Jón Örvar.

Hann segir að ef það verður tjón á burðar­virkinu þá geti skjálftar sem komi eftir það aukið á tjónið.

„Ef á­lagið fer yfir á­kveðin mörk, þá getur það haft á­hrif á burðar­getu, en til þess þyrfti tals­vert stærri skjálfta en við höfum séð í þessari hrinu. Við vitum ekki til þess að burðar­virki húsa hafi skemmst og á meðan svo er ætti fólk ekki að hafa á­hyggjur af styrk húsanna,“ segir Jón Örvar.

Fjarðlægð frá upptökum skiptir einnig máli

Hann segir að hús á Ís­landi séu byggð fyrir tölu­vert stærri skjálfta og meira álag en við höfum upp­lifað undan­farnar þrjár vikur. Stærð skjálftans og fjar­lægð frá upp­tökum hans ráða því hver miklu á­lagi hann veldur. Síðan er það byggingar­efni, fjöldi hæða, lögun hússins og annað þess háttar sem segir til um það hvernig húsið bregst við á­laginu.

Hann segir að reynsla okkar eftir Suður­lands­skjálftana árið 2000 og 2008 sýni að ís­lenskar hús­byggingar þoli jarð­skjálfta vel.

„Skjálftarnir á Suður­landi voru mun stærri en þeir sem nú hafa orðið, en þrátt fyrir það var tjón á burðar­virkjum fá­títt og ekkert í­búðar­hús hrundi,“ segir Jón Örvar.

Þannig Grind­víkingar þurfa ekki að hafa á­hyggjur af húsunum sínum?

„Nei, það þarf tals­vert stærri skjálfta til að valda al­var­legum skemmdum á húsum og fjöldi skjálftanna sem slíkur er ekki sér­stakt á­hyggju­efni.

Margir samverkandi þættir hafa áhrif

Í frétta­til­kynningu frá Hús­næðis- og mann­virkja­stofnun þann 25. febrúar er fjallað um burðar­þol húsa hér á Ís­landi og þar segir að í stuttu máli sé það þannig að hús og mann­virki á Ís­landi séu flest byggð með til­liti til þess að standast jarð­skjálfta.

Þar segir að margir sam­verkandi þættir hafi á­hrif á það hvernig mann­virkjum reiðir af í jarð­skjálftum en það fari eftir undir­stöðum þeirra, formi, efnum sem þau eru úr, frá­gangi þeirra, hönnun og við­haldi.

Þau segja að miklu skipti að húsin séu vel fest við undir­stöðurnar og að á Ís­landi sé al­gengt að í­búðar­hús séu fest við hús­grunninn á malar­púðum eða byggð beint á klöpp. Til að verja hús fyrir jarð­skjálftum þá segir að það skipti einnig miklu máli úr hverju byggingar­efnin eru og eftir því sem þau eru þyngri þá sé meiri hætta á á­hrifum af völdum jarð­skjálfta.

Þau segja að lokum að það sé afar sjald­gæft að fólk slasist í jarð­skjálftum hér landi vegna ein­hvers í byggingu eða hönnun hússins heldur sé miklu al­gengara að þau slasi sig við slíkar að­stæður vegna lausa­muna og hvetja því fólk til að huga að þeim.