Jón Örvar Bjarnason, sérfræðingur í tjóna- og áhættumati hjá Náttúruhamfaratryggingu Íslands, segir að íbúar í Grindavík og annars staðar á Suðurnesjum og jafnvel höfuðborgarsvæðinu, þurfi ekki að hafa áhyggjur af því að húsin þeirra þoli ekki álag vegna sífelldra jarðskjálfta sem orðið hafa, en undanfarnar þrjár vikur hafa mælst yfir 34 þúsund jarðskjálftar á Reykjanesskaga.
„Þetta snýst um burðarþol hússins og það er burðarvirkið sem þarf að glíma við kraftana sem jarðskjálftarnir valda. Á meðan skjálftarnir valda ekki tjóni á burðarvirkinu þá þola húsin í raun síendurtekna skjálfta,“ segir Jón Örvar.
Hann segir að ef það verður tjón á burðarvirkinu þá geti skjálftar sem komi eftir það aukið á tjónið.
„Ef álagið fer yfir ákveðin mörk, þá getur það haft áhrif á burðargetu, en til þess þyrfti talsvert stærri skjálfta en við höfum séð í þessari hrinu. Við vitum ekki til þess að burðarvirki húsa hafi skemmst og á meðan svo er ætti fólk ekki að hafa áhyggjur af styrk húsanna,“ segir Jón Örvar.
Fjarðlægð frá upptökum skiptir einnig máli
Hann segir að hús á Íslandi séu byggð fyrir töluvert stærri skjálfta og meira álag en við höfum upplifað undanfarnar þrjár vikur. Stærð skjálftans og fjarlægð frá upptökum hans ráða því hver miklu álagi hann veldur. Síðan er það byggingarefni, fjöldi hæða, lögun hússins og annað þess háttar sem segir til um það hvernig húsið bregst við álaginu.
Hann segir að reynsla okkar eftir Suðurlandsskjálftana árið 2000 og 2008 sýni að íslenskar húsbyggingar þoli jarðskjálfta vel.
„Skjálftarnir á Suðurlandi voru mun stærri en þeir sem nú hafa orðið, en þrátt fyrir það var tjón á burðarvirkjum fátítt og ekkert íbúðarhús hrundi,“ segir Jón Örvar.
Þannig Grindvíkingar þurfa ekki að hafa áhyggjur af húsunum sínum?
„Nei, það þarf talsvert stærri skjálfta til að valda alvarlegum skemmdum á húsum og fjöldi skjálftanna sem slíkur er ekki sérstakt áhyggjuefni.
Margir samverkandi þættir hafa áhrif
Í fréttatilkynningu frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun þann 25. febrúar er fjallað um burðarþol húsa hér á Íslandi og þar segir að í stuttu máli sé það þannig að hús og mannvirki á Íslandi séu flest byggð með tilliti til þess að standast jarðskjálfta.
Þar segir að margir samverkandi þættir hafi áhrif á það hvernig mannvirkjum reiðir af í jarðskjálftum en það fari eftir undirstöðum þeirra, formi, efnum sem þau eru úr, frágangi þeirra, hönnun og viðhaldi.
Þau segja að miklu skipti að húsin séu vel fest við undirstöðurnar og að á Íslandi sé algengt að íbúðarhús séu fest við húsgrunninn á malarpúðum eða byggð beint á klöpp. Til að verja hús fyrir jarðskjálftum þá segir að það skipti einnig miklu máli úr hverju byggingarefnin eru og eftir því sem þau eru þyngri þá sé meiri hætta á áhrifum af völdum jarðskjálfta.
Þau segja að lokum að það sé afar sjaldgæft að fólk slasist í jarðskjálftum hér landi vegna einhvers í byggingu eða hönnun hússins heldur sé miklu algengara að þau slasi sig við slíkar aðstæður vegna lausamuna og hvetja því fólk til að huga að þeim.