Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands og Haraldur Þorleifsson, stjórnandi hjá Twitter og stofnandi hönnunarfyrirtækisins Ueno tilkynntu í dag að átaksverkefnið Römpum upp Ísland muni á endanum skila fimmtánhundruð römpum víðsvegar um landið í stað hins upprunalega markmiðs að setja upp þúsund rampa.

Þetta tilkynntu þeir í Mjóddinni í dag þegar verkefnið fagnaði því að rampur númer 300 hefði verið vígður. Verkefnið hefur gengið vonum framar en það hófst í mars á þessu ári.

Haraldur og Guðni takast í hendur til að fagna viðbótinni.
Fréttablaðið/EyþórÁrnason

Brugðu á leik

Forsetinn og Haraldur settu upp stuttan leikþátt þar sem Guðni spurði hvort ekki mætti bæta um betur. „Eigum við ekki bara að segja 1500?“ sagði Guðni og varð Haraldur þá nokkuð óviss en sagði þó með semingi að það ætti nú að vera hægt. „Þú ert forsetinn“ sagði Haraldur og steig þá Guðni upp á svið og breytti tölunni úr þúsund í fimmtánhundruð með spreybrúsa.

Fleiri tóku til máls á viðburðinum í dag eins og Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur og Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra Íslands.

Römpum upp Ísland er verkefni sem Haraldur Þorleifsson byrjaði en til stóð að þúsund rampar væru settir upp víðsvegar um landið til þess að tryggja betra aðgengi fyrir hreyfihamlaða.

Nú er þó búið að bæta verulega í enda stendur nú til að búið verði að setja upp fimmtánhundruð rampa fyrir árið 2026.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra var einn af mælendum á viðburðinum.
Fréttablaðið/EyþórÁrnason