Ósætti er í Stykkishólmi eftir að meirihluti sveitarfélagsins samþykkti að úthluta fyrirtæki umdeildri lóð við Nesveg vegna fyrirhugaðrar þangverksmiðju. Íbúar sem búa næst verksmiðjunni óttast sjónmengun, hávaða og lyktarmengun.

Uppi hafa verið ásakanir um að skipulagslög hafi verið brotin og starfræksla verksmiðjunnar muni bitna á útivistarmöguleikum. Þá hafi áformin ekki verið kynnt bæjarbúum sem skyldi. Forseti bæjarstjórnar vísar því á bug að bærinn hafi farið offari í málinu.

Nokkrar kærur hafa borist úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála og er von á fleirum að sögn íbúa. Jarðvegsframkvæmdir við verksmiðjuna eru hafnar.

Þorgeir Már Samúelsson, sem býr í Nestúni 7, í nágrenni við verksmiðjuna, segir kærurnar hafa verið sendar, þar sem íbúar hverfisins sjái að óbreyttu fram á rýrnun á virði fasteigna sinna.

„Enginn myndi kaupa hús í grennd við gúanóverksmiðju,“ segir Þorgeir.

Hann segist sjálfur þekkja svona vinnslu, hann hafi starfað við Þörungaverksmiðjuna á Reykhólum í 40 ár. „Þar var bæði lykt og hávaði og þetta mun skapa ónæði. Auk þess á svona framleiðsla ekki heima við hlið skipasmíðastöðvar eins og þarna er,“ segir Þorgeir og óttast að málningarúði gangi yfir fyrirhugaða matvælaframleiðslu.

Sigurður Pétursson stjórnarformaður Asco Harvester

„Þetta er pólitískur skrípaleikur í krafti auðvaldsins. Þetta eru frekjuhundar,“ segir Þorgeir. „Það eru íhaldsmenn sem fjármagna þessa verksmiðju og það eru íhaldsmenn í meirihluta þessa sveitarfélags.“

Hrafnhildur Hallvarðsdóttir, forseti bæjarstjórnar og oddviti H-listans sem situr í meirihluta í Stykkishólmi, segir margar hliðar á öllum málum.

„Við fögnum því að fá starfsemi í bæinn, það var lokað hjá okkur verksmiðju í fyrra og 30 störf hurfu úr bænum, nú fögnum við 25 nýjum störfum í staðinn með þessari verksmiðju.“ Hrafnhildur minnir á að svo hafi virst sem bæði meirihlutinn og minnihlutinn í bæjarstjórn væru samstíga í málinu framan af.

„Allt í einu núna er þetta mikið mál,“ segir Hrafnhildur og bendir á að öllum reglum verði fylgt og ef eitthvað bjáti á yrði starfsemin stöðvuð ef hún brýtur í bága við kröfur.

Oddvitinn segist þó skilja áhyggjur fólks sem búi næst verksmiðjunni en hún telji fullvíst að fyrirtækið sjái vel um sín mál.

Sigurður Pétursson, stjórnarformaður Asco Harvester, segir að stefnt sé á að vinnsla geti hafist næsta sumar.

„Þarna er um að ræða umhverfisvæna fullvinnslu sjávarafurða á atvinnulóð fyrir hafsækna starfsemi,“ segir Sigurður.

Hann segir ekkert að óttast þótt staðsetningin sé umdeild. Nýjasta tækni muni hljóðdempa starfsemina og þótt þang lykti alltaf verði þau áhrif lágmörkuð með búnaði og fersku hráefni.