Öryggisvistun verður opnuð í Reykjanesbæ í ársbyrjun 2024. Mikil umræða hefur verið í Innri-Njarðvík eftir að áform voru tilkynnt um að vistunin myndi opna í nýju Dalshverfi. Hafa íbúarnir áhyggjur í ljósi reynslu annarra íbúðahverfa af nábýli við öryggisvistun. Öryggisvistunin hefur nú verið tekin út úr skipulagi hverfisins.

„Málið verður tekið á dagskrá hjá skipulagsyfirvöldum Reykjanesbæjar þegar lagaumgjörðin er tilbúin af hálfu ríkisins,“ segir Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri.

Í september árið 2020 greindi Fréttablaðið frá því að þáverandi félagsmálaráðherra, Ásmundur Einar Daðason, hygðist byggja upp stóra öryggisvistun í Reykjanesbæ til að þjónusta allt landið. Öryggisvistanir hýsa ósakhæft fólk sem talið er hættulegt sjálfu sér og öðrum.

Miklar deilur hafa staðið um öryggisvistun í Seljahverfi og Reykjavíkurborg vill hætta rekstrinum. Þá kom upp alvarlegt mál nálægt öryggisvistuninni á Akureyri þar sem ráðist var á átta ára dreng með kverkataki. Báðar eru í íbúðahverfi líkt og Dalshverfi Innri-Njarðvíkur á að vera en úthlutun lóða er þar nýhafin. Um þúsund manns skrifuðu undir undirskriftalista í haust þar sem staðsetningunni var mótmælt.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, nýr félagsmálaráðherra, hefur nú tekið við málinu og samkvæmt svörum ráðuneytisins við fyrirspurnum Fréttablaðsins er stefnumótun í málaflokknum lokið og unnið að frumvarpi sem líti dagsins ljós á næstu vikum. Gert er ráð fyrir að lögin geti tekið gildi 1. júní árið 2023, um hálfu ári áður en stofnunin opnar.

f50060608_gretar_009.jpg

Grétar Sveinn Thedodórsson upplýsingafulltrúi félagsmála og vinnumarkaðssráðuneytisins

Samkvæmt Grétari Sveini Theódórssyni, upplýsingafulltrúa ráðuneytisins, er enn þá gert ráð fyrir að húsnæði fyrir öryggisvistun rísi í Reykjanesbæ. Þetta verði 7 íbúðir eða heimili í kjarna. „Framkvæmdasýsla ríkisins er nú í samtali við skipulagsyfirvöld um nákvæma staðsetningu byggingarinnar,“ segir Grétar. „Nákvæm staðsetning Öryggisvistunar verður ákveðin í kjölfar staðarvalsgreiningar þegar lög um starfsemina, þarfagreining og starfsemislýsing liggur fyrir.“

Bæjarstjórn Reykjanesbæjar hefur tekið jákvætt í verkefnið en áætlað hefur verið að byggingin sjálf kosti 550 milljónir króna og 350 í árlegan rekstur. Í þeim tölum eru laun fyrir 30 starfsmenn.

„Bæjarstjórn samþykkti einróma á sínum tíma að öryggisvistun væri komið fyrir í bæjarfélaginu og það er því óbreytt,“ segir Grétar. Eigi eftir að formfesta staðarvalið og sýna fram á með samanburði og rökum að einn staður henti betur en annar miðað við skilgreindar þarfir og kröfur starfseminnar. „Þessar íbúðir eru byggðar eins og venjuleg heimili fyrir einstaklinga sem þurfa sérstakan stuðning. Byggingin verður þó hönnuð og byggð þannig að alls öryggis sé gætt bæði inni á heimilinu og út á við.“