„Þetta er við­kvæmur mála­flokkur sem þarf að vera hægt að ræða um þannig að stað­reyndir þoli dagsins ljós en séu ekki málaðar upp sem ein­hver hræðslu­á­róður,“ sagði Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnhagsráðherra, í ó­undir­búnum fyrir­spurnum á Al­þingi í morgun. Vísaði hann þar í umræður um hælisleitendamál sem hafa verið í deiglunni að undanförnu.

Sig­mundur Davíð Gunn­laugs­son, þing­maður Mið­flokksins, spurði Bjarna hver stefna ríkis­stjórnarinnar væri í út­lendinga­málum og hvort Sjálf­stæðis­flokkurinn ætli að taka af skarið og ná stjórn á mála­flokknum.

Bjarni sagði allar á­herslur snúast um að vernda til­gang kerfisins. „Við viljum að kerfið gagnist í þeim til­gangi sem það er smíðað en sé ekki þannig að fleiri sæki í það, sem veldur okkur kostnaði og um­stangi, og leiti leiða til að komast inn í hælis­leit­enda­kerfið þegar þeir eru í raun og veru að leita að stað til að búa á og bæta lífs­kjör sín til lengri tíma.“

„Við erum sömu­leiðis með mjög miklar á­hyggjur af skila­boðum sem lög­gæslu­yfir­völd í landinu senda okkur um að vega­bréf frá Venesúela gangi kaupum og sölum og þeim sé síðan fram­vísað hér eins og annars staðar og að þeir sem komi með slík vega­bréf standi í skuld við þá sem út­vega slík vega­bréf og þurfi á komandi árum að finna leiðir til að fjár­magna þá skuld,“ sagði Bjarni.

„Við þurfum að fjár­magna átak til að takast á við slíka aðila þannig að verndar­kerfið okkar gagnist þeim sem það er raun­veru­lega smíðað fyrir, sem er fólk sem þarf að leggja á flótta undan á­standinu heima fyrir og leitar skjóls hér og annars staðar í Evrópu og á skilið að fá vernd,“ sagði hann.

Ís­land geti ekki ætlast til að verða eftir í þeirri þróun sem er al­þjóð­leg. Við getum búist við því að það verði meiri á­sókn í það að komast til landsins eins og er að gerast víða annars staðar.