Rann­sóknar­nefnd á vegum Sam­einuðu þjóðanna hefur komist að þeirri niður­stöðu að það hafi ýmsir stríðs­glæpir átt sér stað í stríðinu í Úkraínu. Tals­menn rúss­nesku ríkis­stjórnarinnar full­yrða að um sé að ræða rógs­her­ferð.

„Byggt á þeim sönnunar­gögnum sem rann­sóknar­nefndin hefur undir höndum er hægt að full­yrða að stríðs­glæpir hafa átt sér stað í Úkraínu,“ sagði Erik Mose, for­maður rann­sóknar­nefndarinnar þegar hann kynnti niður­stöðurnar.

Mose vildi ekki nefna hvaða aðilar hafa verið að verki en sagði að rann­sóknin beindist að at­vikum sem áttu sér stað í nánd við Kænu­garð, Tsjerní­hív, Kharkív og Súmíj.

Hann bætti við að ríkis­stjórn Úkraínu hefði verið lið­leg í að­stoð sinni og veitt þeim upp­lýsingar, en að yfir­völd í Moskvu hefðu ekki svarað fyrir­spurnum þeirra.

Í rann­sókn sinni fór rann­sóknar­nefndin í 27 mis­munandi bæjar­fé­lög og ræddi við 150 ein­stak­linga sem voru ýmist þol­endur of­beldisins eða gátu veitt vitnis­burð. Þá skoðaði nefndin svæði sem urðu fyrir gjör­eyði­leggingu, fjölda­grafir og hús­næði sem voru nýtt til fanga­vistunar og pyntinga. Út frá vett­vangs­ferðinni var hægt að á­lykta að það hefðu stríðs­glæpir átt sér stað.

Að sögn nefndarinnar blöskraði henni að sjá hversu margar af­tökur hefðu átt sér stað og hún væri að afla sér gagna eftir að hafa heyrt af fleiri ó­lög­legum af­tökum. Þá lýstu ein­staklingar sem voru teknir í gíslingu í Rúss­landi ýmsum pyntingum og að það hefðu ekki allir skilað sér aftur.

Að lokum fundust dæmi um mis­munandi kyn­ferðis­legt of­beldi þar sem aldurs­bil þol­enda var á bilinu fjögurra ára til 82 ára og að í ein­hverjum til­vikum hefði að­stand­endur verið vitni að glæpunum.