Yfirvöld í Frakklandi hafa staðfest að tvö tilvik af kórónaveirunni hafi greinst í landinu í dag. Washington Post greinir frá þessu og segir að þetta séu fyrstu tvö staðfestu tilvikin í Evrópu. Veiran hefur þegar verið staðfest í Bandaríkjunum og þá var grunur um smit í bæði Skotlandi og Finnlandi en þau hafa ekki verið staðfest.

Alls hefur veiran nú greinst í níu löndum: Frakklandi, Suður-Kóreu, Japan, Nepal, Taílandi, Singapúr, Víetnam, Taívan og Bandaríkjunum.

Kína hefur reynt að berjast gegn útbreiðslu veirunnar, sem greindist fyrst í borginni Wuhan í miðhluta landsins, og meðal annars sett á ferðabann frá borginni. Þá hefur hátíðahöldum verið frestað eða þeim aflýst til þess að koma í veg fyrir mikla mannsöfnuði.

Nú er talið að 830 hafi sýkst af kórónaveirunni og að 26 hafi látist, en rúmlega átta þúsund eru undir eftirliti vegna gruns um að vera sýktir. Hvorki eru til lyf né bóluefni við veirunni.

Vegna aukinnar útbreiðslu veirunnar hefur sóttvarnarlæknir í samvinnu við almannavarnardeild ríkislögreglustjóra, hafið vinnu í samræmi við viðbragðsáætlanir um alvarlega smitsjúkdóma.

Farþegar sem koma til Íslands og sýna merki um öndunarfærasýkingu og hafa verið í Wuhan í Kína munu þurfa að gangast undir læknisskoðun á Keflavíkurflugvelli og segir í tilkynningu frá Landlækni að til greina komi að setja þá einstaklinga í einangrun.