Með nýjustu tölum af COVID-19 smitum er ljóst að tilfellin á heimsvísu eru orðin fleiri en fimm milljónir.

Tæplega tvær milljónir hafa náð sér af veirunni og rúmlega 325 þúsund látist.

Bandaríkin eru enn í sérflokki þegar kemur að smitum með 1.571.018 smit. Bandaríkin eiga því 31,4 prósent tilfella af COVID á heimsvísu.

Veiran hefur verið í stöðugri sókn í Rússlandi sem er með næst flest smitin. Alls hafa 308.705 greinst með COVID í Rússlandi samkvæmt nýjustu tölum.

Næst kemur Spánn (278.803) en ljóst er að Brasilía(271.885) á eftir að taka fram úr Spáni á næstu dögum. Undanfarna daga hafa um 15 þúsund greinst með COVID daglega í Brasilíu.

Það eru nokkur ríki sem hafa náð þeim áfanga að ekkert staðfest smit er í landinu, þar á meðal Færeyjar, Grænland, Erítrea, Kambódía og fleiri.