Um helgina var staðfest COVID-19 smit hjá starfsmanni í Aðalbyggingu Háskóla Íslands. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Jóni Atla Benediktssyni, rektor til nemenda.

Gripið hefur verið til allra nauðsynlegra ráðstafana í samstarfi við smitrakningarteymi almannavarna og sóttvarnalæknis til að hindra útbreiðslu smitsins og gæta þannig fyllsta öryggis starfsfólks og nemenda. Smitrakningarteymið hefur haft samband við alla sem þurfa að fara í sóttkví og eru það rektor og tveir aðrir starfsmenn í Aðalbyggingu. Starfsstöðvar þeirra sem eru í sóttkví hafa verið sótthreinsaðar rækilega.

Þórólfur Guðnasson, sóttvarnarlæknir sagði á upplýsingafundi almannavarna í hádeginu að sér þætti erfitt að segja til um hvort að smitið muni raska starfsemi Háskólans. Ef að sóttvarnarreglum hafi verið fylgt eftir ætti ekki að þurfa að grípa til frekari ráðstafana en hefur nú þegar verið gert.

Þetta er svona með öll fyrirtæki, þegar einstaklingar eru að greinast getur það komið niður á þeirra starfsemi varðandi sóttkví ef menn hafa ekki passað sig. Ég bendi á að smit kom upp í Verslunarskólanum ekki alls fyrir löngu en þá voru ekkert mjög margir sem þurftu að fara í sóttkví einmitt út af því hvað þeir höfðu farið vel eftir öllum reglum. Það sýnir fram á það að það er mjög mikilvægt að viðhafa allar þessar takmarkanir og fara eftir þeim og þá eru mestar líkur á því að sem fæstir þurfi að fara í sóttkví ," segir Þórólfur.

Þetta sýnir okkur að þótt nýsmitum fari til allrar hamingju fækkandi innanlands er faraldrinum langt í frá lokið. Ég vil því hvetja ykkur öll, kæra samstarfsfólk og nemendur, til að nota rafræna kosti til fundarhalda og fylgja reglum sóttvarnaryfirvalda í einu og öllu. Gætum áfram fyllsta hreinlætis og höldum að minnsta kost eins metra lágmarksbili á milli okkar. Ef við finnum fyrir minnstu einkennum eigum við í öllum tilvikum að halda okkur heima," segir Jón Atli í tilkynningu.