Réttarmeinafræðingar lýstu því opinberlega yfir í dag að auðkýfingurinn Jeffrey Epstein hafi látist af völdum sjálfsvígs. Einhverjir höfðu stungið upp á því að Epstein hafi alls ekki fallið fyrir eigin hendi heldur einfaldlega verið myrtur. Einn slíkur var Donald Trump, Bandaríkjaforseti, sem taldi að brögð væru í tafli.

Grunsamleg hálsbrot

Sam­kvæmt um­fjöllun Washington Post leiðir krufningarskýrsla á milljarða­mæringnum í ljós að meðal þeirra beina sem brotin voru, var meðal annars tungu­bein hans (e. hyoid bone) sem er stað­sett nærri barka­kýlinu.Sagt er það hafi at­vikast að um­rætt bein brotni við hengingu en sér­fræðingar sem banda­ríska blaðið ræddi við segja að brotið sé tölu­vert al­gengara hjá fórnar­lömbum kyrkinga.

Rannsaka sjálfsvíg á sjálfsvígvakt

FBI rannsakar nú hvernig milljarðamæringnum tókst að fremja sjálfsvíg þrátt fyrir að eiga að vera á svokallaðri sjálfsvígsvakt. Epstein var undir sérstöku eftirliti þar sem aðeins örfáum dögum fyrir andlát hans kom fangavörður að honum meðvitundarlausum í fangaklefa sínum með áverka á hálsi.

Þá er á reiki hvort Epstein hafi í raun verið á sjálfsvígsvakt. Mismunandi upplýsingar koma fram í erlendum fjölmiðlum en samkvæmt New York Times var hann fyrst settur á sjálfsvígsvakt en síðan tekinn af henni rúmri viku fyrir andlát hans í síðustu viku.

Handtekinn vegna mansals

Epstein var handtekinn snemma í júlí vegna gruns um að hafa haft fjölda ungra kvenna í kynlífsþrælkun um árabil. Hann átti valdamikla vini og leikur grunur á um að hann hafi veitt mörgum þeirra aðgang að stúlkunum sem hann hélt í kynlífsánauð.

Daginn áður en Epstein féll fyrir eigin hendi var leynd aflétt af gögnum um brot Epsteins gegn ungum konum á heimili hans í Palm Beach og í New York á árunum 2002 til 2005.

Heppilegur dauðdagi fyrir suma

Borgarstjóri New York, Bill de Blasio, segir það „aðeins of heppilegt“ fyrir suma að Epstein sé látinn. Þannig getur hann ekki lengur ljóstrað því upp hverjir nýttu sér þjónustu þeirra ungu stelpna sem hann á að hafa selt. Sem dæmi um valdamikla menn sem voru í sambandi við Epstein á sínum tíma má nefna Bandaríkjaforsetana Donald Trump og Bill Clinton.