Almannavarnanefnd Vestmannaeyja lýsir yfir alvarlegum áhyggjum af þeirri stöðu sem uppi er varðandi þyrlur Landhelgisgæslunnar.

Verkfall flugvirkja hefur nú staðið yfir frá 5. nóvember en ekkert miðar í viðræðum þeirra um nýjan kjarasamning. Fyrir liggur að frá og með miðnætti á morgun verður engin þyrla til taks hjá Landhelgisgæslunni í að minnsta kosti tvo daga.

„Þetta er með öllu óviðunandi og getur ógnað öryggi íbúa í Vestmannaeyjum og sjófarenda ekki síst í því ljósi að veðurspá fyrir næstu daga er slæm og við búið að samgöngur milli lands og Eyja geti raskast verulega af þeim sökum,“ segir í færslu á Facebook-síðu lögreglunnar í Vestmannaeyjum.

Þar kemur fram að almannavarnanefnd Vestmannaeyja skori á stjórnvöld að gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að þyrluþjónusta Landhelgisgæslunnar og neyðarþjónusta á sjó og landi verði með viðunandi hætti.

Guð­mundur Úlfar Jóns­son, for­maður Fé­lags flug­virkja, sagði í samtali við Fréttablaðið fyrr í dag viðræðurnar strandi á samningsforminu. Hann hafi hingað til verið sér­sniðinn að starfi flug­virkja en nú sé verið að reyna að breyta honum þannig hann falli að öðrum ríkis­kjara­samningum.

Eina starf­hæfa þyrla gæslunnar, TF-GRÓ þarf að fara í viðhaldsskoðun á morgun sem tekur í það minnsta tvo daga.

Ás­geir Er­lends­son, upp­lýsinga­full­trúi Land­helgis­gæslunnar, sagði í samtali við Fréttablaðið í gær að grafalvarlegt væri að engin þyrla yrði tiltæk í björgunarstarf í svartasta skammdeginu.

Fréttin hefur verið uppfærð.

Yfirlýsing frá almannavarnanefnd Vestmannaeyja. Almannavarnanefnd Vestmannaeyja lýsir alvarlegum áhyggjum af þeirri...

Posted by Lögreglan í Vestmannaeyjum on Tuesday, November 24, 2020