Rýming er áfram í gildi á ákveðnum svæðum á Seyðisfirði vegna skriðuhættu og verður staðan næst endurskoðuð á morgun.

Mælingar í morgun sýna að lítil sem engin hreyfing hafi orðið á upptakasvæðum skriðufalla frá því í gær en vonskuveður var á Seyðisfirði og morgun og hefur rignt þar mikið í dag.

Núgildandi rýmingasvæði á Seyðisfirði.
Mynd/Lögreglan

Kólnar í kvöld

Engar tilkynningar hafa borist um skriður eða drunur á svæðinu frá því í gær. Engin hreinsunarvinna mun fara fram á rýmingarsvæðinu í dag vegna veðurs en í kvöld mun kólna og rigning á láglendi fer yfir í snjókomu.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá almannavarnardeild ríkislögreglustjóra. Þar segir að sérfræðingar Veðurstofunnar muni meta aðstæður á ný á morgun ásamt samstarfsaðilum og mæla hvort hreyfing hafi orðið á skriðusvæðinu í umhleypingunum.

Upp frá því verður staða rýminga á Seyðisfirði endurmetin. Vel er fylgst með upptakasvæðum skriðufalla, bæði af snjóflóðaeftirlistmönnum á Seyðisfirði og lögreglu.

Staðan verður áfram metin daglega og yfirfarin á samráðsfundi almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra, lögreglunnar á Austurlandi, Veðurstofu Íslands og sveitarfélaga.