Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, segir að fundur hans með sóttvarnalækni og heilbrigðisráðherra hafi verið annar þeirra fundur í vikunni og að enn sé leitað leiða til að bregðast við þungri stöðu á gjörgæslu spítalans. Það sé þó ekki tímabært að segja frekar frá því.

„Staðan á spítalanum er erfið og við erum að leita leiða til að bregðast við mönnunarvandanum sem er á gjörgæslunni,“ segir Páll.

Hvernig gengur það?

„Það er of snemmt að segja. Það hefur gengið ágætlega en það þarf töluvert mikla mönnun þegar um er að ræða fólk með Covid-veikindi,“ segir Páll.

Hann segir að fundurinn hafi verið reglubundinn samráðsfundur. Spurður út í orð Þórólfs um að hann bíði eftir fréttum frá spítalanum eða heilbrigðiskerfinu segir Páll að heilbrigðiskerfinu hafi tekist að bregðast við vandanum sem þau standa frammi fyrir núna hvað varðar almenn legurými og þau sem eru á hefðbundinni bráðadeild.

„En þetta er flóknara með gjörgæsluna því þar er sérhæft starfsfólk. En það er verið að vinna í þessu,“ segir Páll að lokum.