Sigurður Hannes­son, fram­kvæmda­stjóri Sam­taka iðnaðarins, segist ekki trúa öðru en að sveitar­fé­lög landsins vilji vera hluti af lausninni í hús­næðis­málum.

„Að þau vilji taka þátt í því að brjóta upp þessa stöðu á markaðnum sem er al­gjör­lega ó­boð­leg fyrir alla lands­menn og gerir það að verkum til dæmis að verð­bólga er miklu hærri hér á landi en hún þarf að vera,“ segir Sigurður í sam­tali við Morgun­blaðið í dag.

Í síðustu viku kynnti Sigurður Ingi Jóhanns­son inn­viða­ráð­herra ramma­samning þar sem kveðið er á um byggingu 35 þúsund í­búða á næstu tíu árum.

Sigurður Hannes­son segir að iðnaðurinn geti byggt upp þessar 35 þúsund í­búðir.

„En ef þetta á að ganga upp þá þurfa sveitar­fé­lögin að vinna tals­vert öðru­vísi úr málunum en þau hafa gert. Vandinn í hnot­skurn er sá að það eru mörg sveitar­fé­lög á landinu sem finnst þau standa sig vel þegar það kemur að hús­næðis- og byggingar­málum. En þegar á­form þeirra eru lögð saman þá dugar það ekki upp í það sem þarf fyrir lands­menn,“ segir hann við Morgun­blaðið í dag.

Sigurður bendir á að lóða­fram­boð sé ekki nægjan­legt og sú breyting hafi orðið á frá því sem áður var að sveitar­fé­lög hafa ekki jafn mikið um það að segja hve­nær upp­bygging fer fram vegna lands í einka­eigu annarra. Hann segir að sveitar­fé­lög geti brugðist við með því að brjóta nýtt land undir byggð og mikil­vægt sé að horfa ekki ein­vörðungu á þéttingu byggðar.