Staðan í Kinn og Útkinn á Norðurlandi eystra er verri en aðgerðarstjórn lögreglunnar vonaðist til.

Bændur fengu fylgd inn á svæðið í morgun til að komast til mjalta og sáu þá að nýjar skriður féllu í nótt og bætt hafði í skriðurnar sem féllu á síðustu dögum.

Rýming stendur enn yfir en íbúar tólf bæja og eigendur sumarhúsa þurftu að yfirgefa heimili sín og bústaði í gær.

Fréttablaðið ræddi við Hermann Karlsson, aðalvarðstjóra hjá lögreglunni á Norðurlandi eystra, á lögreglustöðinni á Akureyri í morgun.

„Staðan er verri en við vonuðumst til. Nú kom í ljós að skriður féllu í nótt, til allrar lukku á lokuðu svæði,“ segir Hermann.

Björg er nyrsti bærinn í Kinninni en þar fór öll hlíðin niður og féll beggja megin við bæinn. Bændur voru ferjaður yfir Skjálfandafljótið í gær og í morgun til að komast til mjalta.

Lögreglan sá á myndum sem Landhelgisgæslan tók í gærkvöldi að skriður hefðu fallið sunnar en áður var talið. Var þá ákveðið að rýma sex bæi til viðbótar við þá sex sem þegar var búið að rýma.

„Við sáum greinanlega vatnsflaum í jarðveginum á myndunum. Landslagið í brekkunni fyrir ofan er svipað, sami halli og gróðurmagn og sama hætta,“ segir Hermann.

Sérfræðingar frá Veðurstofu Íslands eru á leiðinni á svæðið til að kanna aðstæður og munu svo funda með aðgerðarstjórn um hádegi í dag. Verður þá tekin ákvörðun um hvort íbúar geti snúið aftur heim eða hvort rýming verði framlengd. Hermann er þó bjartsýnn.

„Við horfum samt á það að það sé að fara að draga úr úrkomu og kólna, þetta verður allt viðráðanlegra en við erum samt með fund um hádegi.“

Enn sem komið er hefur lögregla ekki upplýsingar um tjón á eignum, dýrum eða fólki. Samkvæmt bændum hafa bæði hús og skepnur sloppið.

Öll hlíðin kom niður við bæinn Björg. Skriðan var um 500 metra breið þar sem hún var stærst.
Ljósmynd/Landhelgisgæslan