Þrátt fyrir ýmsar ráðstafanir hefur ástand villtra laxastofna í Noregi versnað, segir Vísindaráð laxins þar í landi, Vitenskapelig råd for lakseforvalting, í nýjustu skýrslu sinni.
„Eldislax sem hefur sloppið og laxalús eru áfram mesta ógnin,“ segir vísindaráðið. Sérstaklega sé ástandið slæmt í Vestur- og Mið-Noregi. „Í byrjun níunda áratugarins sneri meira en ein milljón laxa til baka úr hafi á hverju ári,“ segir ráðið. Nú sé þessi tala fallin um helming. „Það er bæði vegna umsvifa mannsins og verri lífsskilyrða í sjó. Áfram er eldislax sem hefur sloppið, laxalús og sýkingar tengdar fiskeldi, stærsta ógnin við villta laxinn. Fleiri stofnar hafa orðið fyrir barðinu á laxalús á síðustu árum og svæðin sem orðið hafa illa úti hafa stækkað.“
Haft er eftir Torbjørn Forseth, formanni vísindaráðsins, að hægt sé að bregðast við vegna áhrifa mannsins í ánum og með fram ströndinni. „En því miður lítur ekki út fyrir að ráðstafanirnar dugi til að staðan batni fyrir laxinn á illa leiknu svæðunum,“ segir hann.

Þá segir ráðið að vatnsvirkjanir og önnur mannvirki séu áfram mikil ógn sem dragi úr stærð laxastofnanna. Ekki sé mikil hætta á að ástandið versni frekar vegna þessara þátta, en að margir möguleikar séu til að minnka áhrifin.
„Það er enn verið að gera ný inngrip í árnar og það er mikið sem við getum gert til að bæta úr eldri inngripum,“ er haft eftir Helge Skoglund, sem situr í vísindaráðinu.
Þá er vikið í skýrslu ráðsins að hnúðlaxi, sem nýrri ógn við marga laxastofna. „Það þarf ráðstafanir á bæði landsvísu og á alþjóðlega vísu til að minnka hættuna á að villti laxinn verði fyrir skaða,“ segir í skýrslunni. Hnúðlaxinn hefur einmitt einnig verið að færa sig upp á skaftið hérlendis, öllum til ama, er óhætt að segja.
Sem fyrr segir er staðan verst um miðbik Noregs og í vesturhluta landsins. Þar hafa laxastofnarnir minnkað mest og ástæðan sögð að stórum hluta vera vegna laxeldisins. Á síðustu þremur árum hafi laxalúsin verið skæð á svæðum þar sem eldið er mest. Margir laxastofnar við Sognefjorden og Sunnmørsfjordene séu í afar slæmu ásigkomulagi.
Staðan er sögð önnur í Suður-Noregi þar sem laxastofnar hafi rétt úr kútnum eftir að kalki hafi á skipulegan hátt verið bætt í ár sem hafa fengið í sig súrt mengunarregn.
Enn fremur kemur fram í skýrslunni að kortlagning sýni að aðeins einn af hverjum fimm laxastofnum sé í góðu eða mjög góðu standi og að meira en þriðjungur stofnanna sé annað hvort í slæmu eða í mjög slæmu horfi.
Þótt færri laxar snúi úr hafi eru það hins vegar fleiri laxar en áður sem hrygna. „Þetta helgast af því að umtalsvert minna er nú veitt í bæði vötnum og ám. Árleg veiði í vötnum og ám er nú um það bil þriðjungur þess sem hún var á níunda áratugnum,“ segir í skýrslunni.
„Á margan hátt eru það veiðimenn í ám og vötnum sem greiða verðið fyrir að við náum ekki að draga úr áhrifum mannsins á villta laxinn,“ er haft eftir Torbjørn Forseth. „En góðu fréttirnar eru þær að ef við náum að draga úr áhrifunum, hafa flest vatnsföllin nægan hrygningarfisk og góða nýliðun, þannig að laxinn gæti fljótt náð sér á strik.“