Á nýjasta fundi bæjarstjórnar Hafnarfjarðarbæjar kom fram að starfsfólk vantar á ellefu af 17 leikskólum bæjarins. Alls eru 25 stöðugildi laus í tveimur þriðju af leikskólum Hafnarfjarðar. Fjöldi fólks, bæði faglært og ófaglært, hefur sagt upp störfum í leikskólum bæjarins á síðustu árum.

Þetta kom fram í svari við fyrirspurn Hildar Rósar Guðbjargardóttur, bæjarfulltrúa Samfylkingarinnar.

„Það eru þarna ellefu leikskólar sem eru ekki fullmannaðir, til að bera þetta saman við Reykjavíkurborg, þar sem það hefur verið mjög hávær umræða um þetta og niðurstöðurnar eru mjög sorglegar. Þetta eru grafalvarlegar tölur og þetta bitnar á starfsfólki, börnunum og fjölskyldunum,“ segir Hildur Rós, í samtali við Fréttablaðið.

„Í Reykjavík vantar 90 starfsmenn á 80 leikskólum þannig að hlutfallið í Hafnarfirði er talsvert hærra. Þessar tölur vekja áhyggjur hjá okkur þar sem við höfum verið að tala fyrir leikskólamálum í bæjar­félaginu.“

Í bókuninni talar Hildur um áhrif deilna innan meirihlutasamstarfs Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks þegar kemur að leikskólamálum og kallar eftir því að undið sé ofan af þessum vinnubrögðum á kjörtímabilinu. Hún segir stöðuna erfiða.

„Við höfum fengið upplýsingar frá stéttarfélaginu um að starfsfólk á leikskóla í Hafnarfirði sé á lakari kjörum en í nágrannasveitarfélögum og starfsaðstæðurnar fara sífellt versnandi með aukinni manneklu. Það sem af er ári hafa þrjátíu leikskólarakennarar í Hafnafirði sagt upp störfum og það þrengir sífellt að þessum hópi.

Við erum að missa kennarana og foreldrarnir eru að koma til okkar að lýsa yfir áhyggjum. Fyrir vikið var þetta lagt fram til að vekja athygli á þessu og tryggja að þetta yrði í fjárhagsáætlunargerð, hvernig við getum bætt starfsumhverfi og aðstæður á leikskólum í Hafnarfirði,“ segir Hildur við Fréttablaðið.