Samkvæmt nýrri skýrslu UN Women um stöðu og réttindi kvenna og stúlkna í Afganistan hafa grundvallarréttindi þeirra skerst verulega frá 15. ágúst, þegar Talíbanar tóku yfir stjórn landsins.
Skýrslan, Gender Alert I: Women´s rights in Afghanistan: Where are we now? einblínir á þróun á stöðu kvenna frá valdatökunni en meðal þeirra breytinga sem hafa átt sér stað er að konur mega ekki ferðast utandyra án „mahram“ sem er karlkyns ættingi og þá hafa strangar reglur hafa verið settar um klæðaburð kvenna.
„Við hjá UN Women gleymum ekki, við erum á staðnum og dreifum neyðarpökkum til kvenna og barna þeirra og grípum þolendur og kvenaðgerðasinna sem gefast ekki upp þrátt fyrir skelfilegar aðstæður,“ segir Stella Samúelsdóttir, framkvæmdastýra UN Women á Íslandi.
Kvennamálaráðuneyti strax lagt niður
Í skýrslunni kemur fram að andlegri heilsu kvenna hefur hrakað vegna takmarkanna á frelsi þeirra, ótta við Talíbana og vegna gamalla hefða sem spretta upp aftur. Þá eru konur hræddar við atvinnuleysi en sérstakt Kvennamálaráðuneyti sem hefur verið starfandi frá árinu 2001 var lagt niður um leið og Talíbanar tóku völd.
Í skýrslunni segir að ekki sé vitað hvort að þær konur sem störfuðu áður á vegum ríkisins eða á vegum sveitarfélaga fái að snúa aftur til vinnu, en fyrir valdatökuna voru þær um 30 prósent opinberra starfsmanna auk þess sem 28 prósent þingmanna voru konur. Í dag er þátttaka kvenna í stjórnmálum engin.
Kallað er eftir því í skýrslunni að aðstæður í Afganistan og viðbrögð við þeim séu skoðaðar með tilliti til kyns, annars sé hætta á að auka enn á ójöfnuð í stað þess að bæta kjör allra íbúa landsins.
Þá kemur einnig fram í skýrslunni að valdataka Talíbana hafi haft mikil áhrif á kvenrekin grasrótarsamtök og -félagasamtök. Megnið af þeim hefur hætt starfsemi eftir 15. ágúst vegna takmarkana, fjárskorts og öryggisástæðna.
Síðan í ágúst 2021 hafa stúlkur aðeins aðgang að gagnfræðamenntun í sjö af 34 héruðum landsins. Tíðni kynbundins ofbeldis var mjög há í Afganistan fyrir valdatöku talíbana. En 87 prósent kvenna og stúlkna höfðu þolað kynbundið ofbeldi á ævi sinni og þriðjungur kvenna er giftur fyrir 18 ára aldur. Eftir valdatöku talibana hefur reynst erfitt fyrir þolendur að nálgast þjónustu. Margir þjónustuaðilar þurftu að loka vegna öryggisástæðna, hótana og fjárskorts.
Hægt er að styðja baráttu UN Women fyrir bættum hag kvenna í Afganistan með því að kaupa táknræna jólagjöf UN Women – Neyðarpakka fyrir konu í Afganistan á www.unwomen.is
„Við hvetjum öll til að styðja við starf UN Women með því að kaupa táknræna gjöf UN Women, neyðarpakka fyrir konu í Afganistan. Neyðarpakkinn kostar 1900 krónur og fæst á www.unwomen.is,“ segir Stella að lokum.