Sam­kvæmt nýrri skýrslu UN Wo­men um stöðu og réttindi kvenna og stúlkna í Afgan­istan hafa grund­vallar­réttindi þeirra skerst veru­lega frá 15. ágúst, þegar Talí­banar tóku yfir stjórn landsins.

Skýrslan, Gender Alert I: Wo­men´s rig­hts in Af­g­hanistan: Where are we now? ein­blínir á þróun á stöðu kvenna frá valda­tökunni en meðal þeirra breytinga sem hafa átt sér stað er að konur mega ekki ferðast utan­dyra án „mahram“ sem er karl­kyns ættingi og þá hafa strangar reglur hafa verið settar um klæða­burð kvenna.

„Við hjá UN Wo­men gleymum ekki, við erum á staðnum og dreifum neyðar­pökkum til kvenna og barna þeirra og grípum þol­endur og kven­að­gerða­sinna sem gefast ekki upp þrátt fyrir skelfi­legar að­stæður,“ segir Stella Samúels­dóttir, fram­kvæmda­stýra UN Wo­men á Ís­landi.

Kvennamálaráðuneyti strax lagt niður

Í skýrslunni kemur fram að and­legri heilsu kvenna hefur hrakað vegna tak­markanna á frelsi þeirra, ótta við Talí­bana og vegna gamalla hefða sem spretta upp aftur. Þá eru konur hræddar við at­vinnu­leysi en sér­stakt Kvenna­mála­ráðu­neyti sem hefur verið starfandi frá árinu 2001 var lagt niður um leið og Talí­banar tóku völd.

Í skýrslunni segir að ekki sé vitað hvort að þær konur sem störfuðu áður á vegum ríkisins eða á vegum sveitar­fé­laga fái að snúa aftur til vinnu, en fyrir valda­tökuna voru þær um 30 prósent opin­berra starfs­manna auk þess sem 28 prósent þing­manna voru konur. Í dag er þátt­taka kvenna í stjórn­málum engin.

Kallað er eftir því í skýrslunni að að­stæður í Afgan­istan og við­brögð við þeim séu skoðaðar með til­liti til kyns, annars sé hætta á að auka enn á ó­jöfnuð í stað þess að bæta kjör allra íbúa landsins.

Þá kemur einnig fram í skýrslunni að valda­taka Talí­bana hafi haft mikil á­hrif á kven­rekin gras­rótar­sam­tök og -fé­laga­sam­tök. Megnið af þeim hefur hætt starf­semi eftir 15. ágúst vegna tak­markana, fjár­skorts og öryggis­á­stæðna.

Síðan í ágúst 2021 hafa stúlkur að­eins að­gang að gagn­fræða­menntun í sjö af 34 héruðum landsins. Tíðni kyn­bundins of­beldis var mjög há í Afgan­istan fyrir valda­töku talí­bana. En 87 prósent kvenna og stúlkna höfðu þolað kyn­bundið of­beldi á ævi sinni og þriðjungur kvenna er giftur fyrir 18 ára aldur. Eftir valda­töku tali­bana hefur reynst erfitt fyrir þol­endur að nálgast þjónustu. Margir þjónustu­aðilar þurftu að loka vegna öryggis­á­stæðna, hótana og fjár­skorts.

Hægt er að styðja bar­áttu UN Wo­men fyrir bættum hag kvenna í Afgan­istan með því að kaupa tákn­ræna jóla­gjöf UN Wo­men – Neyðar­pakka fyrir konu í Afgan­istan á www.unwo­men.is

„Við hvetjum öll til að styðja við starf UN Wo­men með því að kaupa tákn­ræna gjöf UN Wo­men, neyðar­pakka fyrir konu í Afgan­istan. Neyðar­pakkinn kostar 1900 krónur og fæst á www.unwo­men.is,“ segir Stella að lokum.