Najat segir að staða barna hafi farið versnandi um heim allan síðustu ár. Najat var hér á landi í júní og hitti embættismenn, þingmenn, starfsfólk Barnahúss og Barna- og fjölskyldustofu til að ræða stöðu barna á Íslandi og um heiminn allan.

„Þegar ég var skipuð í embættið árið 2019 var ofbeldi gegn börnum mikið og skorti mikið á bæði barnavernd og réttindi barna alþjóðlega,“ segir Najat og að eftir heimsfaraldur Covid-19 hafi ofbeldi gegn börnum og ójafnrétti aukist í heiminum öllum.

„Ef þú bætir svo við það mannúðarkrísunum sem voru í gangi fyrir heimsfaraldur, sem urðu verri í heimsfaraldri, átökum í Miðausturlöndum, víða í Afríku og Mið-Afríku og svo loftslagsbreytingum og þeim mikla fjölda sem hefur þurft að leggja á flótta vegna þess, þá sérðu að heimurinn sem við búum í er ekki heimur sem veitir vernd.“

Þol, sveigjanleiki og geta til að bregðast við

Najat segir að á sama tíma sjái hún í þeim börnum sem hún hittir og vinnur með ótrúlegt þol, sveigjanleika og getu til að bregðast við og að hún dáist að börnum í fátækari löndum sem noti samfélagsmiðla til að vekja athygli á stöðu sinni og til að bæta aðstæður sínar.

„Þau láta vita og eru að tala við aðra. Þau eru ekki aðgerðalaus og þess vegna er ég bjartsýn. Því þessi börn hafa alla hæfileikana og geta notað þá. En það sem ég hef áhyggjur af er að þau fái ekki stuðninginn sem þau þurfa til að geta blómstrað.“

Najat segir að annað sem hún hafi miklar áhyggjur af sé sá mikli fjöldi barna sem er á flótta í dag, bæði alþjóðlega og innan heimalanda sinna.

„Þessi börn eru hluti af kerfinu en við sjáum, sérstaklega í efnameiri ríkjum, að börn, vegna stöðu sinnar á flótta, eru svipt réttindum sínum og aðskilin frá fjölskyldu sinni. Það er komið fram við þau eins og úrhrök og þau eru ekki hluti af kerfinu,“ segir Najat.

„Það er eitthvað sem gengur ekki upp í heiminum og viðbrögðin eru ekki góð. Það eru flóttamannabúðir í heiminum þar sem er að alast upp fjórða kynslóð barna sem líklega fer aldrei þaðan. Þau eiga enga framtíð, eru vonlaus og örvæntingarfull.“

Áætlað er að 100 milljónir séu á flótta, og þá eru ekki talin með þau börn sem eru á flótta innan heimlands síns eða á faraldsfæti.

„Þetta er risastórt vandamál og það er áætlað að helmingur séu konur og börn. Það er eitthvað sem gengur ekki upp í heiminum og viðbrögðin eru ekki góð. Það eru flóttamannabúðir í heiminum þar sem er að alast upp fjórða kynslóð barna sem líklega fer aldrei þaðan. Þau eiga enga framtíð, eru vonlaus og örvæntingarfull,“ segir Najat og að hún hafi séð þetta í Tsjad, Níger, Líbanon, Jórdaníu, Grikklandi og mörgum öðrum löndum.

„Það sem þarf að varast sérstaklega er þegar ljósið slökknar í augum þessara barna, þá er það of seint,“ segir Najat og að það liggi mjög mikið á að endurskoða þau viðbrögð sem eru í heiminum við þeim mikla fjölda sem hefur lagt á flótta eða þurft að yfirgefa heimili sín.

„Það sem þarf að varast sérstaklega er þegar ljósið slökknar í augum þessara barna, þá er það of seint.“

„Þurfum við að halda áfram að hafa neyðaraðstoð þegar ástandið er krónískt? Sama hvert er litið, jafnvel til Úkraínu, þar mun þetta verða langvarandi vandi. Við þurfum að læra af reynslunni og breyta neyðaraðstoð í aðstoð sem miðar að því að hjálpa fólki [e. people centered development]. Þetta snýst ekki um peningatilfærslu, þetta snýst um að vera með félagslegt kerfi sem styrkir fólk og styður það. Sem hjálpar þeim að vera ríkisborgarar þar sem þau eru í stað þess að aðskilja þau frá öðrum, og tryggja þeim öryggi og vernd. Þetta er pakki og ef við gerum þetta ekki þá verður kostnaðurinn gífurlegur,“ segir Najat og að afleiðingar aðskilnaðar séu meira ofbeldi, meira kynþáttahatur og útlendingahatur auk þess sem það auki líkurnar á því að alþjóðleg glæpasamtök eflist.

Verðum að koma eins fram við öll börn á flótta

Najat segir að ofan á þetta bætist svo það tvöfalda siðgæði sem má sjá í Evrópu hvað varðar flóttafólk frá Úkraínu og svo flóttafólk annars staðar frá, og hvernig framkoman og móttakan sé ekki sú sama.

„Við verðum að koma eins fram við öll börn á flótta. Annað er eitthvað sem gengur ekki upp. Nýverið var ég í Rúmeníu þar sem ég hitti stúlkur frá Afganistan, Sómalíu og Kongó sem báðu mig um að minna fólk á að þær séu til,“ segir Najat og að þær bíði eftir hælisumsókn og eigi jafnvel fjölskyldur í öðrum löndum í Evrópu sem bíði eins og þær, því fólk frá Úkraínu fékk forgang í kerfinu.

„Það þarf að passa upp á þetta. Við munum ekki koma í veg fyrir flótta og fólksflutninga og við þurfum að byrja að hugsa um það hvernig við tökum á móti fólki. Það þarf að fjárfesta í friði og svo hugsa um loftslagsbreytingarnar og hvernig við ætlum að koma í veg fyrir þær,“ segir Najat og að það þurfi að styrkja tengsl landa og að þjónusta innan þeirra sé aðgengileg öllum börnum, sama hvar, og geri ekki upp á milli þeirra miðað við það hver staða þeirra er.

Najat Maalla, sérstakur sendifulltrúi Sameinuði þjóðanna um ofbeldi gegn börnum, segir stöðu barna í heiminum hafa farið versnandi undanfarin ár.
Fréttablaðið/Anton Brink

Leiðtogar þurfa að tileinka sér ný viðhorf

Hún segir að leiðtogar um allan heim þurfi að tileinka sér ný viðhorf þar sem einblínt er á fólk í stað landamæra og að það þurfi að tryggja að öll börn njóti sama réttar, sama hvar þau eru.

„Það er ekki eðlilegt að það sé ekki þannig. Þegar við tölum um farsæld þá eru það ekki bara peningar, heldur líka menningarlegur fjölbreytileiki og umburðarlyndi, og yfirvöld þurfa að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að forðast mismunun.“

Najat er ein þeirra sem unnu að nýjum farsældarlögum mennta- og barnamálaráðherra og var í desember til viðtals um það á vef Fréttablaðsins. Hún sagði þá að ferlið hefði verið til fyrirmyndar og nefndi sérstaklega hversu gott það er að börn fái aukið tækifæri, samkvæmt lögunum, til að tjá skoðun sína.

„Það þarf að hugsa um börn sem part af lausn og ekki bara sem framtíðina. Þau eru ekki framtíðin, þau eru hérna hér og nú og þurfa að vera með,“ segir Najat.

Hún segir það mikilvægt að börn fái að taka þátt og segja skoðun sína en að það þurfi að gæta þess að það sé ekki aðeins táknræn þátttaka og að auk þess þurfi að passa að sá hópur barna sem tekur þátt sé ekki einsleitur.

„Börn eiga að vera hluti af lausninni og það er ákveðið ferli að framkvæma það. Þetta snýst ekki um að sníða þau að okkar þörfum. Það er fullorðna fólkið sem þarf að breyta sinni hugsun.“