Í gær höfðu verið staðfest yfir 113 og hálf milljón COVID-19 tilfelli í heiminum.

Langflestir hafa greinst í Bandaríkjunum, rúmlega 29 milljónir talsins, og því næst á Indlandi þar sem um 11 milljónir tilfella hafa greinst.

Fæst kórónaveirutilfelli hafa verið staðfest á Vanúatú-eyjum og í Míkrónesíu þar sem aðeins eitt tilfelli hefur verið staðfest á hvorum stað fyrir sig. Þá hafa aðeins verið staðfest þrjú tilfelli á Samóa-eyjum og fjögur á Marshall-eyjum í Vestur-Kyrrahafi.

Á Norðurlöndunum hafa langtum flest tilfelli verið greind í Svíþjóð, yfir 650 þúsund talsins, og því næst í Danmörku, 210 þúsundir hafa smitast þar í landi.

Alls hafa rúmlega 2,5 milljónir manna látist úr COVID-19 í heiminum og eru dauðsföllin flest í Bandaríkjunum þar sem þau eru komin yfir hálfa milljón. Rúmlega 250 þúsund hafa látist í Brasilíu og yfir 180 þúsund í Mexíkó.