Að mati stjórnenda Íslandspósts ohf. (ÍSP) liggur endanleg ábyrgð á slæmri stöðu fyrirtækisins ekki hjá þeim heldur hjá stjórnvöldum. Ummæli þessa efnis má finna í fundargerðum fyrirtækisins.

Líkt og Fréttablaðið hefur fjallað ítarlega um hefur ríkið lánað ÍSP 500 milljónir króna til að mæta lausafjárþurrð félagsins. Fyrir jól var samþykkt á þingi að veita allt að milljarð til viðbótar í lán eða auka hlutafé sem því nemur. Þær tillögur bárust frá handhafa hlutabréfsins, það er fjármálaráðuneytinu, en ekki stjórn félagsins. Aðalfundur þess var áætlaður í lok febrúar en var skyndilega frestað.

Í málflutningi ÍSP hefur komið fram að tapið megi rekja til mikillar fækkunar bréfa og óhagstæðra alþjóðlegra endastöðvasamninga. Samkvæmt samningnum eru ríki flokkuð í þróunarríki og iðnríki. Sendingum frá fyrrnefnda flokknum hefur verið dreift hér á landi með gífurlegu tapi. Áætlað er að niðurgreiðsla ríkisins á sendingum erlendis frá vegna þessa nemi um þremur milljörðum króna.

„Stjórn taldi stöðuna mjög alvarlega og ljóst að stjórnvöld þyrftu að koma að málinu, enda eru þau í reynd ábyrg fyrir samningum Alþjóðapóstsambandsins [UPU] og verðlagningu póstþjónustu milli landa,“ segir í fundargerð stjórnar frá í júní 2017. Fulltrúi Íslands á fundum UPU er starfsmaður ÍSP.

Fyrirspurn blaðsins um hví ÍSP hefði ekki velt þessum kostnaði yfir á neytendur var svarað með því að samningurinn stæði þar í vegi. Þrátt fyrir það er gert ráð fyrir því í frumvarpi til nýrra póstþjónustulaga að gert sé ráð fyrir kostnaðinum í gjaldskrá. Að öðru leyti er ákvæðið samhljóða núgildandi ákvæði. Fyrirspurn til samgöngu- og sveitarstjórnaráðuneytisins um hvort ÍSP hafi verið slíkt heimilt samkvæmt núgildandi lögum, sem send var í janúar, hefur ekki verið svarað.

Í fundargerðunum er einnig vikið að því að ábyrgð stjórnenda samkvæmt hlutafélagalögum sé skýr en komi ekki heim og saman við rekstrarumhverfi fyrirtækisins. Vald til þess að hlutast til um þætti í rekstri fyrirtækisins liggi í raun annars staðar og rekstur alþjónustu í óbreyttri mynd sé kominn á leiðarenda. Þá er þar einnig fjallað um seinagang Póst- og fjarskiptastofnunar (PFS) við að samþykkja eða synja gjaldskrárhækkunum en ÍSP hefur áætlað tekjutap upp á hundruð milljóna vegna slíks.

„Stjórn og stjórnendur ÍSP telja óverjandi að halda áfram rekstri póstþjónustunnar við óbreyttar aðstæður. Fjárhagslegur grundvöllur til þess að halda uppi starfsemi í samræmi við rekstrarleyfi er löngu brostinn,“ segir í bókun stjórnar í júní 2016.

Því má halda til haga að á næsta fundi ræddu stjórnarmenn tillögur um stækkun flutningamiðstöðvar fyrirtækisins að Stórhöfða en tillaga framkvæmdastjórnar hljóðaði upp á allt að 2,2 milljarða framkvæmdir. Þá fannst rými á fundi í desember 2017 til að hækka laun forstjóra, fyrst afturvirkt í hálft ár um 25 prósent og síðan frá áramótum 2018 um 11 prósent. Þá hækkuðu launin um þrjú prósent í maí 2018. Alls nemur hækkunin því 43 prósentum.

joli@frettabladid.is