Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir í samtali við Fréttablaðið að staða Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði sé yfirþyrmandi. Hann segir framsetningu á skýrslu Hagstofunnar um tekjur fjölmiðla skrítna.

Greint var frá því fyrir helgi að Hagstofa Íslands hafi birt skýrslu um tekjur íslenskra fjölmiðla. Í fyrirsögn skýrslunnar segir að átta af hverjum tíu krónum fjölmiðla falli til einkarekinna fjölmiðla. „Þetta er allt svolítið skrítið,“ segir Óli í samtali við Fréttablaðið. „Það er ekki rétt að taka fjölmiðla svona saman sem eina heild, ef menn ætla að horfa á skiptingu auglýsingatekna milli RÚV annars vegar og einkarekinna fjölmiðla hins vegar er þeim auðvitað rétt og skylt að horfa á sama markaðinn,“ heldur hann áfram.

Hlutdeild RÚV vanmetin

Óli vísar til þess að RÚV er aðeins með nærveru á markaði ljósvakamiðla, en ekki prent- og netmiðla. „RÚV er sem betur fer ekki í beinni samkeppni við prentmiðla, en það er á ljósvakamarkaði og það þarf auðvitað að sundurgreina það með skynsamlegum hætti, annars er hlutdeild RÚV vanmetin í samkeppni við ljósvakamiðla,“ segir hann.

Óli Björn segir að það gefi töluvert breytta mynd þegar litið er aðeins til sjónvarps- og útvarpsmiðla, þar sem RÚV tekur þátt á auglýsingamarkaði. „Það sem þetta snýst um er að hlutdeild RÚV á ljósvakamiðlum er 41 prósent samtals, það er að segja í útvarpi er hlutdeildin 34 prósent og í sjónvarpi 48 prósent,“ segir Óli.

Hann segir að það sé aðalfréttin í þessu máli. „Þrátt fyrir fjölgun sjónvarps- og útvarpsstöðva er hlutdeild RÚV yfirþyrmandi á auglýsingamarkaði og það er ekki hægt að búa við svona stöðu ríkisfjölmiðils til lengri tíma. Við því er ekki hægt að una, að ríkisfyrirtæki skuli hafa svona markaðshlutdeild,“ segir Óli Björn að lokum.

RÚV í villtum vexti

Magnús Ragnarsson, framkvæmdastjóri hjá Símanum, segir að niðurstöðurnar litist af því að RÚV sé ekki á prentmarkaði, „sem betur fer“. „Það sem mér finnst merkilegast í þessu er að það hefur ítrekað verið reynt að sníða RÚV stakk en samt hefur það alltaf verið í villtum vexti og haldið sinni hlutdeild,“ segir Magnús í samtali við Fréttablaðið. „Árið 2013 var reynt að skerða hlutdeild RÚV á auglýsingamarkaði með löggjöf, auglýsingamínútum fækkað og takmarkanir settar á kostanir, en það hefur engu skilað og breytti engu um hæfni RÚV til að afla sér tekna á auglýsingamarkaði.“

Magnús bætir við að ekki bæti úr skák að fjárframlög til RÚV hækki á hverju ári. „Jafnvel þó að nú séu komnir miklu fleiri miðlar til að leysa þetta verkefni RÚV eru fjárframlög alltaf hækkuð, nú síðast um einhverjar 500 milljónir,“ segir Magnús.