Arnar Þór Jónsson héraðsdómari hefur ekki tekið ákvörðun um hvort hann láti af dómaraembætti eða fari í leyfi frá dómarastörfum vegna framboðs síns til Alþingis. Hann skipar fimmta sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi fyrir alþingiskosningar í haust.

Í svari við fyrirspurn Fréttablaðsins segist Arnar Þór eiga eftir að kveða upp dóm í einu máli sem dómtekið var fyrr í þessum mánuði og eigi eftir að leysa úr bráðabirgðakröfum í nokkrum málum sem komu inn um svipað leyti. „Ég ætla að einbeita mér að því að klára þessi mál, helst nú fyrir mánaðamótin, og taka svo ákvörðun um framhaldið að því loknu,“ segir Arnar Þór.

Héraðsdómarar eru kjörgengir samkvæmt landslögum en álitaefnið er hins vegar hvort einstaklingur sem fer með dómsvald geti á sama tíma, með hliðsjón af reglunni um þrígreiningu ríkisvalds, sóst eftir því að taka sæti á Alþingi og fara þar með löggjafarvald.

Vill að aganefnd taki afstöðu í málinu

Ingibjörg Þorsteinsdóttir, dómstjóri Héraðsdóms Reykjavíkur, segir mikilvægt að leyst verði úr lagalegri óvissu í aðstæðum sem þessum þrátt fyrir kjörgengi lögum samkvæmt. Hún bendir einnig á siðareglur dómara sem kveða á um að það samræmist ekki hlutverki dómara að taka virkan þátt í stjórnmálastarfi.

„Það er mín afstaða að nefnd um dómarastörf þurfi að taka stefnumarkandi ákvörðun um hvar mörkin liggja. Það er enginn annar innan kerfisins sem getur tekið afstöðu til þess hvort það samræmist dómarastörfum að taka þátt í prófkjöri, taka sæti á lista eða taka sæti á Alþingi.“

Hjördís Hákonardóttir, formaður nefndar um dómarastörf, segir nefndina ekki geta tjáð sig fyrir fram um álitamál sem hún kynni að þurfa að taka afstöðu til, en játar því aðspurð að álitaefnið hafi ekki komið upp áður og því ekki til neitt fordæmi sem hægt er að vísa til.