Þótt hluta flugmanna sem sagt var upp hjá Icelandair hafi nú verið boðið starf áfram er staðan óljós varðandi flugvirkja.

„Það hefur ekkert verið gefið út enn þá með endurráðningar á flugvirkjum,“ segir Guðmundur Úlfar Jónsson, formaður Flugvirkjafélags Íslands. Málið hafi ekki verið rætt sérstaklega. Það er fyrirtækisins megin að gera það.“

Að sögn Guðmundar var um 130 flugvirkjum af 300 sagt upp og rennur uppsagnarfresturinn út um næstu mánaðamót.

Hluti uppsagna hjá flugmönnum Icelandair frá því í apríl hefur verið afturkallaður og 114 flugmönnum boðið áframhaldandi starf. Því verði alls 139 flugmenn hjá félaginu.

Ekki var unnt að fá upplýsingar í gær frá Icelandair varðandi stöðu annarra starfshópa hjá félaginu. Var sagt að ekki væri tímabært að ræða þau mál.