Mahindra hefur beðið SsangYong að leita annarra leiða til að fjármagna sig, en SsangYong hefur hingað til reitt sig á fjármagn frá Mahindra sem á 74,65% í SsangYong. Fyrir tveimur mánuðum sagðist Mahindra ætla að fjárfesta fyrir 423 milljónir dollara í SsangYong svo að merkið gæti farið að bera sig fyrir 2022. SsangYong smíðar aðallega jeppa og jepplinga eins og íslendingar þekkja mætavel, og seldi 14.627 bíla í Evrópu í fyrra, sem er samdráttum um 10% frá 16.082 bílum árið 2018.

SsangYong hefur það á prjónunum að selja Kornado sem 100% rafbíl á þessu ári á Evrópumarkaði, og átti að frumsýna bílinn á bílasýningunni í Genf í marsmánuði. Mahindra hefur reyndar sagst ætla að greiða 32 milljónir dollara til SsangYong á næstu þremur mánuðum til að halda fyrirtækinu á floti meðan að leitað er að öðrum fjárfestum. Ljóst er þó að SsangYong er í töluverðum vandræðum eins og oft áður. Mahindra keypti stóran hlut í SsangYong árið 2010 en þrátt fyrir nokkrar tilraunir hefur ekki tekist að koma merkinu á markað í Bandaríkjunum. Í stað þess hefur verið horft á markaði í Kína og Evrópu.