Þótt um algerlega nýjan bíl sé að ræða verður ekki mikil breyting á útliti bílsins, og ljósabúnaður og yfirbygging að mestu leyti hið sama. Stuðarar eru endurhannaðir ásamt grilli og komin eru ný þokuljós. Aðeins einn rafmótor verður í boði sem skilar 188 hestöflum, sem er 27 hestöflum meira en bensínvélin í eldri bílnum. Hámarkshraði verður takmarkaður við 160 km á klst. Rafhlaðan verður frá LG Chem og er 61,5 kWst og á að skila 400 km drægi samkvæmt NEDC staðlinum að sögn SsangYong, sem þýðir allavega 320 km drægi samkvæmt WLTP staðlinum í Evrópu. Mun Korando EV koma á markað næsta vor en verð hefur ekki verið gefið út ennþá. Von er á Korando tvinnbíl með dísilmótor árið 2022.